Silinugr, sjóbirtingur, Veiðikortið
Víða má veiða fallega silunga. Mynd -gg.

Veiðikortið 2019 kom út laust fyrir jólin og hefur eflaust lent í mörgum pökkum sem finna mátti til veiðimanna um jólin. Ævinlega eru einhverjar breytingar á framboði frá ári til árs, vötn detta út, ný koma inn. Það sama er uppi á teningnum þetta árið. Kíkjum aðeins á það.

Í fréttatilkynningu sem að umsjónarmenn Veiðikortsins létu frá sér fara kemur fram að breytingarnar eru all nokkrar að þessu sinni.

Hreðavatn í Norðurárdal í Borgarbyggð kemur nýtt inn og verður gaman að geta staldrað við í fallegu umhverfi og kastað fyrir silung. Að vatninu er keyrt frá Bifröst og er ´´ohætt að segja að fá vötn jafnast á við Hreðavatn hvað náttúrufegurð varðar og spillir ekki að umhverfið er að stóum hluta skógi vaxið. Þar eru enn fremur fjölmargar gönguleiðir. Góð veiði er í vatninu, bæði bleikkja og urriði og er fiskur af öllum stærðum, allt frá smælki upp í fínustu fiska. Vatnið hentar það sérlega vel fyrir fjölskyldur. Þá má nefna að Hólmavatn og Laxárvatn í Dölum koma aftur inn eftir nokkurt hlé. Þá er Meðalfellsvatn kynnt sem nýtt vatnasvæði þar sem það var ekki formlega komið inn í bæklinginn þar sem það kom inn síðastliðið vor eftir smá hlé.

Vötnin sem hætta í Veiðikortinu eru vötnin í Svínadal (Eyrarvatn, Geitabergsvatn og Þórisstaðavatn) auk Hítarvatns, en Hítarvatn hefur verið í kortinu frá upphafi. Þetta eru allt góð vötn, sér í lagi Hítarvatnið, en þau eru líka góð vötnin sem koma í staðinn.

Það eru vel á fjórða tug veiðisvæða á Veiðikortinu að þessu sinni og er það einn af fáum hlutum í heiminum sem hækkaði ekki í verði milli ára, en það kostar það sama og í fyrra, 7900 krónur.