Einn ósáttur.

Í tilefni af frétt í dag um 107 cm risabirting er ekki frá því að velta fyrir sér hversu þungur hann hafi mögulega verið. Margir hafa enn áhuga á þyngd. Vitað er að miðað við lengd eru birtingar oftast nær þyngri en laxar, stundum furðu miklu þyngri. Við rifjum hér upp nokkur atvik frá fyrri árum.

Það er ekki mikið getið um þyngd stórra sjóbirtinga hin síðari ár þar sem þeim er jafnan sleppt eftir mælingu og myndatöku. Því eru þyngdarpælingar oftast nær ágiskanir. Þó veit VoV af nokkrum síðan í „gamla daga“ sem drepnir voru og vegnir. Voru þá birtingar um 86 cm upp í ríflega 18 pund og ekki undir 16 pundum, allt eftir holdafari. Hvað þá 107 cm fiskur að hausti.

Hér er sá stóri, 107 cm í höndum Karls Brynjars Björnssonar.

Fyrir fjölmörgum árum veiddi þó Haraldur Eiríksson, sölustjóri hjá Hreggnasa, hrygnu að vori í Tungulæk. Hún var, ef minnið svíkur ekki, meter að lengd og hátt í 24 pund. Af vorfiski að vera var hrygna þessi í furðu góðum holdum, en menn geta spurt sig um þyngdina haustið áður með öll hrognin innanborðs og aukreitis fitu utan á kjötinu. Þennan fisk hefði Haraldur aldrei drepið og tekið heim nema vegna þess að hann gleypti Black Ghost straumfluguna ofan í tálkn og blæddi út.

 

Hörður Birgir Hafsteinsson með 101 cm hæng úr Húseyjarkvísl. Mynd er frá Mokveiðifélaginu.

Síðan getum við flutt okkur nær í tíma, til vorsins 2015 er Hörður Birgir Hafsteinsson landaði 101 cm birtingi í Húseyjarkvísl. Sá var aldrei veginn, heldur sleppt um hæl. Af myndinni að dæma er um vel yfir 20 punda fisk að ræða, hvað þá haustið áður. Það er smá fítus við þennan tiltekna fisk, að hann var merktur og hafði verið dreginn að landi tveimur árum áður. Þá 96 cm. Þetta er lýsandi dæmi um hvað sá siður að sleppa sjóbirtingi skilar fleiri stórum fiskum, eins og sjá hefur mátt í íslenskum ám síðustu árin.

„Ekki undir 25 pundum nýgenginn“, 95 cm úr opnuun Geirlandsár í fyrra.

Eitt dæmi enn, síðan í fyrra. Aftur vorfiskur og að þessu sinni frá opnun Geirlandsár þar sem Gunnar Óskarsson, einu sinni sem oftar, landaði stærsta fiskinum. Að þessu sinni var um 95 cm hæng að ræða. Á myndinni sem hér fylgir má sjá hvílíkt tröll var á ferðinni og fyrir þá sem ekki þekkja Gunnar þá er hann hávaxið heljarmenni. „Hann hefur ekki verið undir 25 pundum nýgenginn,“ sagði kappinn á sínum tíma. Óskhyggja? Líklega ekki.

Síðan geta menn gefið hugmyndarfluginu lausan tauminn, ef þeir vilja, og spáð í hvað 107 cm birtingur að hausti hafi vegið.