Brynjar Þór Hreggviðsson búinn að setja í vænan lax í Damminum. Myndir tók Höskuldur Birkir Erlingsson

Blanda var ekki með í yfirreið okkar á vikutölum frá angling.is í gær af þeirri ástæðu að engin ný vikutala hafði þar birst. Nú er talan komin og af henni má ráða að höggið sé komið. Í vikunni sem lauk að kvöldi s.l. miðvikudags kom enginn lax á land.

Það eru einhverjar 2-3 vikur síðan að yfirfall var yfirvofandi og mikil ólga í veiðiréttarhöfum, leigutökum og veiðimönnum. En veðurguðirnir gripu í taumana og hagstætt veður hægði á framrás hins óhjákvæmilega yfirfalls.

Talan í ánni frá síðasta miðvikudagskvöldi er 475 laxar, sama tala og í vikunni á undan, og þó talan muni eflaust hækka eitthvað þá verður það tæplega mikið. Um svipað leyti í fyrra, 21.8, var veiðin orðin 572 laxar og þótti ekki gott, enda slakt ár í fyrra með aðeins 638 laxa heildarveiði. Ýmsir hafa talið tölur sumarsins benda til þess að áin sé í algerum doða, slakari heldur en á sama tíma í fyrra, en hafa ber í huga að áin er nú aðeins veidd með flugu sem gerir veiðiskap í henni mun meira krefjandi.

Planið með því, sem og að kippa kvóta á drepnum laxi niður úr öllu valdi, var að glæða laxastofna á svæðinu, ekki hvað síst í hliðaránni Svarta sem að hefur verið í öldudal síðustu ár. 2017 veiddust þar t.d. 128 laxar, 2018 voru þeir 129 en í fyrra var botninum náð þegar aðeins 57 laxar veiddust. En nú, að kvöldi síðasta miðvikudagskvölds voru komnir 111 laxar á land og ágætiskropp í ánni. Og þó nokkuð talið vera af fiski í ánni, í það minnsta munu meira en síðustu sumur og á það án efa rætur sínar að rekja til minna laxadráps í Blöndu.