Frábær urriðaveiði í Þingvallavatni gæti heyrt fortíðinni til ef ekki verður tekið á vissum vandamálum sem tengjast mikilli fjölgun urriða í vatninu. Það er fallegt að sjá myndir af tröllunum sem veiðast, en þeim fer fækkandi. Það er fullt af urriða, en bleikjan er að hverfa og urriðinn gerist horaður. Hann er að éta sig útá gaddinn.
VoV hefur rætt við nokra þrautreynda Þingvallamenn og segja þeir að menn séu samdóma um að lífríkið sé á niðurleið, jafnvægið sé brostið. Risunum fækki og þó að nóg sé enn af urriða í vatninu og að menn séu að veiða vel, þá fer fiskur smækkandi og horuðum urriðum fjölgandi. Cezary Fijalkowski sagði í samtali við VoV að vinir hans hefðu spurt sig um síðustu helgi hvert þeir ættu að fara til að hitta á bleikju. Hann vísaði þeim á Lambhagann, en eftirtekja dagsins var að þeir urðu ekki varir við bleikju, en veiddu ellefu urriða, allt að ríflega 80 cm, sem voru, að einum undanskyldum, grindhoraðir.
„Fyrir 10-15 árum fóru menn og veiddu 10 til 30 bleikjur á kvöldi eða dagsparti. Í dag sjá menn varla fisk,“ sagði Cezary. Ásgeir Ólafsson tók undir þetta og sagði: „Nú er það orðið svo að bleikju og murtu fer ört fækkandi ár eftir ár í vatninu og horaðir urriðar sem sáust varla fyrir 10 árum síðan eru nú orðin algeng sjón. Bleikjan er minn fiskur í vatninu. Ástandið er orðið þannig núna að maður sér varla bleikju synda framhjá manni lengur í þjóðgarðinum á góðviðrisdögum. Hér áður fyrr var ekki óalgengt að maður sæi 5-10 bleikjur synda framhjá í góðu veðri. Murtustofninn er hruninn og bleikjan er hraðri niðurleið í vatninu. Ég var að tala við Hafstein vin minn um daginn. Hann er virkilega góður bleikjuveiðimaður og hannaði fluguna Burton. Hafsteinn hefur veitt í gegnum árin gríðarlega vel í Elliðavatni, Úlfljótsvatni og Þingvallavatni sem dæmi. Hann er á því að urriðinn sé á góðri leið með að klára murtu- og bleikjustofninn í vatninu. Ég verð að viðurkenna að ég er honum hjartanlega sammála. Cezary er á því að það þurfi að fara að drepa urriðann aftur til að ná aftur jafnvægi í lífríkið í vatninu.“
Bæði Cezari og Ásgeir nefndu að veiðileyfasalar í suðurenda vatnsins væru í klípu, en ef leyft væri t.d. að drepa kvóta í þjóðgarðinum, þá væri það ef til vill til einhvers. Eitthvað yrði að gera því spírallinn væri á hraðri niðurleið. Þeir sögðu: „Menn eru að fá fallegan afla í sunnanverðu vatninu, á ION svæðunum og á svæðum Fish Partner, en risarnir eru þarna ekki lengur, þetta er smærri fiskur og horuðum fiskum fer fjölgandi,“ sagði Cezary.