Haldið til veiða í Aðaldal í morgun.....

Það má kalla undur og stórmerki að enginn lax veiddist í opnun Laxár í Aðaldal. Þó hefur sést til laxa í ánni síðustu daga. „Enginn á land, ég tek stöðuna á morgun,“ sagði Jón Helgi Björnsson á Laxamýri í skeyti til okkar í kvöld.

Áin var sem sagt opnuð með „pompi og prakt“ hvað sem það þýðir, í morgun. Væntingar um góða opnun voru umtalsverðar, enda höfðu sést laxar. En þeir hafa greinilega verið gengnir ofar. Í fyrsta skipti sem VoV man eftir þá kom enginn lax á fyrsta degi í Laxá í Aðaldal. Við vonum auðvitað að fall sé fararheill.