Laxveiðin er vooooða róleg, en Norðurá búin að toppa sig!

Úr undirdjúpum Norðurár - Mynd Heimir Óskarsson

Laxveiðin er vooooða róleg. Sum staðar er umtalsvert af laxi en skilyrði afleit, hiti, úrkomuleysi, sól. Þær ár gætu átt heilmikið inni með haustinu. En svo eru önnur svæði sem eru beinlínis langt á eftir sjálfum sér frá fyrra sumri. Norðurá má þó eiga það að hún er orðin betri en allt sumarið í fyrra, var nú samt ekki úr háum söðli að detta. Eða þannig.

Sem sagt, byrjum á Norðurá. Í gærkvöldi voru komnir 1125 laxar á land, en veiði farin að dala. Talsvert af laxi, en skilyrði slæm. Þverá/Kjarrá er á sama róli komin með 957 laxa en var með 1027 í fyrra. Lítur út fyrir að hún sé á svipaðri vegferð og Norðurá. Aðrar ár á Vesturlandi eru hins vegar ekki jafn skýrar.

Og í Rangárþingi er eithvað allt annað að gerast en í fyrra. Á það sérstaklega við um Eystri Rangá sem var með fárálega góða veiði í fyrra, 9070 laxa, en er nú aðeins komin í 1605 laxa eftir 300 laxa viku. Eitthvað minnir okkur að margir dagar í fyrra voru að gefa á milli 100 og 200 laxa, þannig að þó að langt sé frá því að vera einhver ördeyða í Eystri, þá er hún langt frá stóra standardinum sem settur var í fyrra. Ytri Rangá, sem er í öðru sæti á lista angling.is er svo sem ekki að skora nein snilldarmörk, komin með 1417 laxa, alls 2642 í fyrra. Hún hefur verið langt að baki sínu besta síðustu sumur og engin breyting þar á í sumar, þó að eins og í Eystri: Það er engin ördeyða! Menn eru að setja í fiska Þetta með Rangárnar er góð áminning um að það er aldrei rétt eða sanngjarnt að miða alltaf allt saman við metveiðisumrin.

Annars ætlum við ekkert lengra út í þetta, angling.is er með þessar tölur og samviskusemin á þeim bæ er aðdáunarverð.