Æðarfossar í Laxá í Aðaldal

Athygli hefur vakið í sumar hversu sorglega dauf Laxá í Aðaldal hefur verið. Hún hefur verið á hraðri niðurleið síðustu árin og fátt sem bendir til annars en að þetta sumar verði hið lakasta í manna minnum.

Ef við lítum fyrst á statistíkina, þá voru komnir 315 laxar á land s.l. miðvikudagskvöld þegar angling.is birti sínar vikulegu vikutölur. Vikan hafði skilað 9 löxum á land á 17 skráðar laxastangir. Segja má að áin hafi verið á krappri niðurleið síðan 2016, en þá komu þó 1207 laxar á land. 2017 voru þeir 709, 2018 voru þeir 608 og í fyrra 501 lax. Einungis sumarið 2012 sker sig úr á þennan máta, en þá veiddust aðeins 428 laxar í ánni. Það er spurning hvort að áin nær þeirri tölu, en eftir helgi er september genginn í garð og það styttist í endalok vertíðarinnar. Fram að téðri niðursveiflu var áin yfirleitt með fjögurra stafa tölu og slakt ár taldist vera ef að áin datt niður í 8-900 laxa, sem þætti nánast hátíð í dag. All nokkrum sinnum hin seinni ár var drottningin að skila yfir 2000 löxum, en svoleiðis veislur virðast heyra sögunni til. Að minnsta kosti í bili.

En hvað er að? Oft hefur verið talað um að sandburður frá Kráká hafi spillt búsvæðum og það kann að vera eitthvað til í því. Það má líka benda á að laxveiðin fyrir öllu Norðurlandi hefur verið dræm síðustu sumur þó að Miðfjarðará hafi haft nokkra sérstöðu.  En það eru þó nokkur ár síðan að tekið var fyrir svokallað blandað agn í ánni, aðeins fluga leyfð og skylda að sleppa öllum laxi. Það hefur ekki skilað sterkari stofni, en umhugsunarefni er hvernig staðan væri ef að enn mætti drepa lax að vild í ánni.

Jón Helgi Björnsson á Laxamýri sagði í samtali við VoV að vissulega hefði sumarið verið erfitt, sem og þau síðustu. „Kannski á áin eitthvað inni, ég veit það ekki, en vonandi. Hún hefur verið erfið til veiða uppá síðkastið vegna þörunga sem berast frá Mývatni. Áin hefur verið græn á litinn vegna þessa. Kannski glæðist eitthvað þegar hún hreinsar sig. En hvers vegna áin dalar svo mjög frá ári til árs  er erfitt að svara til um. Ef til vill er skýringa að leita til þess að áin er fremur hlý sem skilar seiðum til hafs fyrr en gengur og gerist. Þá tekur við þeim hin mikla óvissa sem fylgir ástandinu í hafinu. Kannski að þau lendi fyrir vikið í erfiðari stöðu og það skili sér í lægri endurkomu. Kannski er hafið laxaseiðunum erfiðara fyrir Norðurlandi þar sem flestar árnar í þeim landshluta hafa verið með slakara móti. Strax og komið er austar er eins og seiði skili sér betur úr hafi, nægir að benda á góðar göngur í Vopnafirði og í Jöklu,“ sagði Jón Helgi.