Sunnudalsá
Sunnudalsá er augljóslega stórglæsileg veiðiá. Myndin er fengin af vef IFF.

Það er skammt stórra högga á milli hjá IFF, félagi Sigurðar Héðins(Sigga Haugs) og Ingólfs Helgasonar, sem m.a. leigir Flekkudalsá og tók nýlega við umboðssölu í Tungulæk fyrir nýja eigendur. Félagið selur nú í Sunnudalsá í Vopnafirði og efri hluta silungasvæðis Hofsár.

Sunnudalsá er hliðará Hofsár og hefur verið að gefa einhverja 60 til 70 laxa að meðaltali síðustu ár, en áin stendur þo undir mun meiri veiði, því hún hefur verið keypt upp að stærstum hluta af erlendum aðilum sem hafa stundað hana lítið. Mun nær sanni væri að segja að þetta væri á sem gæfi um 150 laxa að meðaltali. Það eru eldri tölur úr henni. Silungaavæði Hofsár er rómað og efri hlutinn, sem að fylgir nú Sunnudalsá, er frábært veiðisvæði, skartar m.a. einum rómaðasta sjóbleikjuveiðistað landsins, hinum fræga Fellshyl. Þá kemur inn í svæðið ármótahylur ánna tveggja sem fylgdi ávalt Sunnudalsá en var ekkert stundaður.

Um er að ræða þriggja stanga svæði sem býður upp á eitt flottasta veiðihús landsins, veiðihúsið við Sunnudalsá. Það er vel stórt, í bjálkakofastíl. Með sánu og potti og fuglasafni sem skákar verulega safninu í húsinu við Hítará. Selt verður í svæðið frá miðjum júlí fram í miðjan september.