Veiðikappi með rígvænan birting úr Leirá. Myndin er frá FB síðu IO veiðileyfa.

Leirá í Leirársveit hefur vakið talsverða athygli síðustu árin, ekki síst núna 2020 þegar að því er virðist, hefur ákveðin stefna með ána skilað áþreifanlegum og mögnuðum árangri. Eðli árinnar hefur einnig breyst mikið.

VoV hefur kíkt af og til í Leirá síðustu árin, eða eftir að Iceland Outfitters tóku ána á leigu. Fram að því hafði áin verið veidd af litlum lokuðum hópi. Aflinn var blandaður, lax og sjóbirtingur. Náði áin á sínum tíma allt að 70-80 löxum á sumri á tvær stangir, auk öðru eins af birtingi. Þegar IO tók við ánni hafði veiðin dalað mikið og settar voru skorður á veiðiskapinn. Aðeins skyldi veitt á flugu og öllum fiski sleppt.

Að sjálfsögðu vakti þetta mikla athygli, en var ekki einsdæmi, annað eins hefur verið sett á margar ár í landinu síðustu árin. Að sleppa öllu er alltaf umdeilt og kannski á það eitthvað rétt á sér gagnvart laxinum. Sums staðar eru stofnar laxins svo hraustir að dálítill drápskvóti getur varla skipt sköpum. En sums staðar er sjóbirtingi best hlíft með slíkum reglum. Það stafar af því að lífsferill hans er gerólíkur og hjá frændanum laxinum. Birtingurinn verður miklu eldri og gengur oft í ána. Hann nær því að stækka og stækka mikið ef hann er ekki sleginn í rot þegar hann er 4 punda.

Sjóbirtingur, hængur, Leirá
Vígalegur hængur.

VoV leit við í hitabylgjunni og hafði lítið erindi sem erfiði, annað en dýrðast yfir þeirri sjón að sjá tifandi stóra birtinga í nokkkrum hyljum. Vorveiðin að þessu sinni vakti svakalega athygli. Það var mok og vorveiðin skilaði 132 birtingum auk tveggja hoplaxa. Nú í sumar hefur áin verið lengi með mjög litlu vatni en svo rigndi um daginn hressilega og það veiddist strax og sumarveiðin í dag var komin í 16 fiska, þar af voru þrír laxar. Þeir voru allir 60 til 62 cm.

En það er birtingurinn sem fangar athyglina. Hann virðist hafa yfirtekið ána algerlega. VoV sá enga laxa, en hins vegar marga stóra birtinga, fiska á bilinu 5 til 10 pund. Með vorveiðinni eru alls komnir 148 fiskar á land, þar af 143 birtingar. Sjóbirtingur hefur farið stækkandi í ánni með hverju árinu og núna eru í bókinni 16 fiskar yfir 70 cm og þeir stærstu tveir sem voru mældir 82 cm. Þá eru margir um og yfir 60 cm. Þetta er talandi dæmi um að ef menn vilja byggja upp sterka sjóbirtingsstofna, þá er rétt að hlífa fiskinum. Hann verður gamall, stór, stærri og stærstur áður en yfir lýkur.