Erlingur Hannesson með 96 cm sjóbirtingshrygnu úr Hvannakeldu í Eldvatni fyrr í haust. Myndin er af FB síðu leigutaka Eldvatns.

Sjóbirtingsveiði fór yfirleitt vel af stað og frekar snemma miðað við það sem alvanalegt þykir. Síðan dofnaði en er nú aftur að taka við sér. Við erum að tala um Suður- og Suðausturland.

Jón Hrafn Karlsson, einn leigutaka Eldvatns í Meðallandi sagði í samtali við VoV: „Eftir góða byrjun í ágúst þá róaðist veiðin nú töluvert , eins og reyndar á flestum svæðum sem ég hef heyrt af hérna. Síðan, fyrir viku síðan þá lifnaði nú aftur yfir þessu. Eldvatnið er nú samt ekki að skila neinum metfjölda eins og er , en fjöldi stórfiska hefur þó aldrei verið meiri , komnir m.a. 5 fiskar á land 90-96cm.“

Þessi orð Jóns Hrafns eru í sama anda og annarra sem við höfum heyrt í eða hlerað. Tíðin á haustin er yfirleitt rysjótt og svo hefur verið núna, ýmist miklar dembur og stillur inn á milli. Eldvatn og Tungulækur eru lindár sem lyftast kannski í stórrigningum, en litast sjaldan. Öðru máli gegnir um t.d. Tungufljót og Geirlandsá, sem eru dragár og verða agalegar í flóðum, en að sama skapi veiðilegar með afbrigðum þegar vatnið sígur á ný. Alls staðar hefur verið nokkuð líflegt, en eitt er það sem angrar okkur hér á VoV nokkuð.

Það er, að litlum fregnum fer af geldfiski, en þeim mun meiri fregnum af stórfiski. Kemur það ekki á óvart eftir að hafa frétt af og greint frá góðum árgöngum geldfiska fyrir nokkrum árum. Var víða allt pakkað af þeim. Nú bregður svo við að aflinn er að stórum hluta stór og gamall hrygningarfiskur. Holl eitt í Tungulæk sem fékk á dögunum vel á fjórða tug birtinga. Flestir þeirra fiska voru á bilinu 70 til 80 cm og bæði þar, í Eldvatni, Tungufljóti og Geirlandsá er það sama uppi á teningunum, mest af fiskinum 70 og upp í ríflega 90 cm. Í Vatnsá og Heiðarvatni í Heiðardal hefur umsjónarmaðurinn Ásgeir Arnar Ásmundsson sagt VoV að óvenju mikið sé af birtingi og hann sé stærri en oft áður.

Þetta segir kannski enga sögu. Vitað er að geldfiskurinn er ekkert tímabundinn með sínar göngur og vel þekkt er að sums staðar er hann að ganga fram eftir vetri og kemur gjarnan fram í vorveiði. Svo hverfur hann og menn fá áhyggjur ef hann skilar sér ekki með hrygningarfiskinum á hefðbundum göngutíma. Þannig að tíminn verður að leiða í ljós hvort að farið sé að bera á gloppum í árgöngum.