Tregluhylur í Jöklu, 75 km frá sjó og nýgengnir laxar að tala hitsaðar flugur. Myndin er síðan í fyrra og Sigurjón Ragnar á veg og vanda að henni.

Vikutölur angling.is munu byrja að rúlla inn í kvöld og þegar líður á morgundaginn verða þær væntanlega flestar eða allar dottnar inn. Við getum samt tekið forskot á sæluna og greint frá metveiðidegi í Jöklu, enn einni 100plús vikunni, en því miður næst metveiði kannski ekki þar sem Hálslón er að fyllast og því stutt í yfirfall.

Strengir eru leigutaki Jöklu og á vefsíðu félagsins kom þetta m.a. fram: „Fjörið heldur áfram í Jöklu og í gær fengust 35 laxar þegar veðurbreyting varð er slaknaði á hitabylgjunni sem verið hefur sl.viku. Komu 35 laxar á land sem er mesta veiði á einum degi í Jöklu í sumar og þar af töluvert af nýrunnum smálaxi svo hann er ennþá að ganga á fullu. Mikið af laxi er komið upp á Jöklu II og megnið af veiðinni er nú þar. Það stefnir í enn eina 100 laxa viku líkt og flestar aðrar vikur þetta sumarið! En eftir svakalega hitabylgu þar sem hitinn á hálendinu var yfir 20 gráðum dag eftir dag er Hálslón að fyllast því miður en annars væri metsumar öruggt í kortunum, jafnvel um helgina er von á yfirfalli.

Á myndinni hér að ofan, sem er fengin af vefsíðu Strengja má sjá  efsta veiðistaðinn í Jöklu þar sem vitað er um að lax hafi veiðst, Tregluhylur rúma 75 km frá sjó. Þar voru nýrunni laxar að veiðast í gær og meðal annars fimm laxar sem komu á hitch! Þegar þessi mynd var tekin í fyrradag var lofthitinn 25°C og vatnshitinn 22°C, en samt tók lax á brotinu!“