Falleg mynd tekin neðan við Kistukvísl í Laxá í Aðaldal. Myndin er fngin hjá Matthíasi Þór Hákonarsyni veiðileyfasala á Akureyri.

Veiðisögur rifja oft upp aðrar veiðisögur. VoV lesa oft hjá keppinautnum Sporðaköstum og þar var nú síðast sagt frá laxi sem veiddist tvisvar, 102 cm dreki í Austurá í Miðfirði. Líklega af því að vettvangurinn var efri hluti Austurár þá rifjaðist upp algerlega galin veiðisaga frá sömu slóðum….og önnur pínu sorgleg úr Þistilfirði.

Já, sem sagt Sporðaköst greindu frá laxi sem reyndar slapp, sleit taum og stal flugu og svo veiddist 102 cm hængur í klakveiði á sama stað nú fyrrir skemmstu. Og að flesti benti til að einnig þessi sami lax hefði veiðst og verið sleppt í opnun árinnar. Flott veiðisaga heldur betur.

En þegar þessi hængur var kominn „heim“ var hann í Austurá ofan við Kambsfoss. Þar rétt ofan við brú yfir ána er veiðistaður sem við hjá VoV munum því miður ekki lengur hvað heitir, of langt síðan að við veiddum í Miðfjarðará, en einkenni hans er stór flatur steinn í botni sem lax liggur oft við. Eitt sumarið fyrir margt löngu lá þar stór lax. Menn reyndu allt. Og mönnum varð ágengt, það er, með hléum tók laxinn ef að kastað var á hann svörtum Tóbí. En það var alltaf sama sagan, um leið og laxinn fann fyrir járninu tók hann sama vinkilinn, niður með steininum og undir hann að neðanverðu. Sleit þar línuna á grjótinu.

Þetta var erfitt, en menn reyndu og reyndu, enda var þetta helvítis bolti. Fjórum sinnum endurtók þetta sig frá miðjum ágúst og fram í september. Aldrei kom hann í flugu og vék sér alltaf undan maðki, sem þá var enn leyfilegur.

En.

Næst síðasta dag vertíðar var komið einhverskonar gjörningaveður, þrumuveður fyrir sunnan og himininn séður úr Miðfirði sem svartari en djöfullinn. Fyrir sunnan forðaði fólk sér inn í hús undan næstum golfboltastórum hagléljum, en fyrir norðan hvessti hressilega og hlýnaði. Þá datt veiðimanni á staðnum, sem mikið hafði reynt við tröllið við steininn, að renna maðki, þó að það hefði aldrei gert annað en að fæla höfðingjann.

En gjörningaveður leiða eitt og annað af sér. Þá eru töfrar þó að allir skynji það ekki.

Laxinn gleypti ofan í maga og fékk engin færi á að taka hringveginn um steininn. Honum var skóflað burt frá honum með 30-40 punda línu og dröslað á land. Kolsvartur hængur, 17 pund, en draga mátti af þyngdinni fjóra 28 gramma Tóbíspóna, sem allir dingluðu í kjaftviki hængsins.

Og fyrst að við erum byrjaðir. Hér er saga sem Lárus Gunnsteinsson sagði okkur. Ansi mörg ár síðan. Hann var á sínum tíma að veiða í Hölkná í Þistilfirði snemma í júlí, skömmu eftir opnun árinnar. Þá var veitt á blandað agn í ánni, en Lárus með flugu að venju. Fyrsta daginn landaði hann og sleppti 12 punda grálúsugri hrygnu í hyl skammt frá veiðihúsinu. Hann setti slöngumerki í laxinn.

Daginn eftir var hann að reyna hér og þar ofar í ánni og í hyl einum frekar ofarlega setti hann í lax. Það var 12 punda hrygna. Sami laxinn, slöngumerkið var til vitnis.

Nú fer engum sögum um frekari afrek Lalla Skóara í þessum túr, en hann sagði okkur seinna að hann hefði frétt að á lokadegi veiða í Hölkná það árið, hefði veiðimaður landað 12 punda grútleginni hrygnu í hylnum undir efsta fossi. Hún var drepin og hún var með kunnuglegt slöngumerki.