Ari Edwald, Þverá, Kirkjustrengur
Ari Edwald með 90 cm hæng úr Kirkjustreng.

Þverá/Kjarrá byrjaði í morgun og eftir því sem við best vitum þá var líf og fjör, um það bil þrjátíu laxar á land og fisk víða að finna,  þetta sagði okkur Andrés Eyjólfsson og Aðalsteinn Pétursson leiðsögumenn við ána nú í kvöld.

Halldór Hafsteinsson, Þverá
Halldór Hafsteinsson með flottan lax í opnun Þverár.

Við sjáum hvað setur, menn höfðu séð talsvert af laxi bæði í Þverá og niður á Brennutanga vikuna á undan opnuninni, lax greinilega að ganga þar líkt og í Norðurá og víðar. Þeir Andrés og Aðalsteinn sögðu að svipuð veiði hefði verið efra og neðra, 9 í morgun og 5 eftir hádegi á báðum stöðum, ekki hefði heyrst enn frá veiðimönnum sem voru á Gilsbakkaeyrum, en þar hafi verið lax í morgun og því menn bjartsýnir að sú stöng skilaði einhverju, það eru því staðfestir 28 laxar.

„Það sem kom okkur skemmtilega á óvart var að enginn lax var undir 80 cm ogt allir voru sílspikaðir og sérlega vel haldnir úr hafi,“ sagði Aðalsteinn í samtali við VoV nú í kvöld.