Stórlax. Alviðra er fræg fyrir þá.

Tómas Lorange Sigurðsson birti þessa mynd af Árfellsstokki í Stóru Laxá á FB í kvöld og Árni Baldursson leigutaki deildi henni, enda er myndin falleg og Árefllsstokkur fallegur veiðistaður eins og raunar allir veiðistaðir í gljúfrum Stóru Laxár. Þessi myndbirting rifjaði upp vægast sagt ótrúlega veiðisögu sem gerðist einmitt við Árfellsstokk.

Saga þessi var skráð í bókinni Á veiðislóðum sem kom út 1987. Þar er skráð frásögn Eyþórs Sigmundssonar um lax sem hann veiddi þar 25 árum áður og að hans mati stærsti lax sem veiðst hefur í íslenskri laxveiðiá fyrr og síðar. Rifjum þetta upp:

Eyþór hefur að mestu orðið: „Það eru líklega orðin að minnsta kosti 25 ár síðan að þetta gerðist. Þá vorum við Ásgeir Guðbjartsson og Tryggvi Þorfinsson með Hörgsholtslandið í Stóru Laxá í Hreppum á leigu. Þetta var fyrir tíma SVFR í Stóru og við höfðum þetta ansi rólegt. Fórum bara upp eftir um helgar og þar sem áin fékk yfirleitt góða hvíld á virkum dögum, þótti ekkert stórmál þótt við værum að fá þetta upp í tíu laxa eða meira á mann yfir helgina. Og margir þeirra voru stórir, já mjög stórir.

Árfellsstokkur í Stóru Laxá. Mynd Tómas Lorange Sigurðsson.

Einu sinni vorum við upp frá og ég rambaði fram á veiðistað einn þekktan sem heitir Árfellsstokkur. Þar gat að líta alveg ægilegan lax, stærri fisk en ég hafði nokkru sinni séð  og hef ég engan lax séð sem er nærri þessum. Þetta var algert tröll og ég skalf allur og hristist er ég gerði klárt og renndi fyrir hann. En það var sama hvað ég reyndi, laxinn vildi ekki taka og varð ég að taka því.

Þessi lax hafði mikil áhrif á mig og það leið ekki sá dagur eða dagstund að ég sæi hann ekki fyrir mér liggjandi í hylnum og tifandi uggum. Þegar ég kom aftur að Árfellsstokki viku seinna var mig bókstaflega farið að klæja um allt að komast í tæri við laxinn og ég óskaði þess heitt að hann væri enn á sínum stað. Og það var hann. Ekki bara hann sjálfur, heldur annar til. Þeir voru orðnir tveir, báðir svona risavaxnir en annar þó sýnilega stærri. Ég var ekki klár á því hvorn fiskinn ég hafði séð í fyrra skiptið, en það skipti engu máli. Nú var að reyna við þá og það gerði ég samviskulega og vel það, en aftur leið helgin án þess að þeir vildu snerta agn.

Það var ekki annað að gera en að reyna að skrimta af eina vikuna enn og nú var álagið orðið svakalegt. Mig var farið að dreyma þessa laxa. Hrökk flestar nætur upp í svitabaði og horfðist í augu við þá í myrkrinu. Þetta var ótrúlegt álag. Ég gat ekki á heilum mér tekið og fólk tók eftir því að ég var bæði annars hugar og styggur. Þó leið vikan á endanum  og stundin var runnin upp. Við vorum aftur á leið austur í Hreppa.

Enn voru þeir á sínum stað og ég sá þá ef til vill betur nú en fyrr og sannfærðist enn betur um að stærð þeirra væri engin sjónhverfing. Ég hafði sett sterkari línu á hjólið og valdi gríðarstóran öngul, 6/0, snúinn; beitti vel og lét maðkinn renna niður að löxunum og beið. Það leið dálítil stund og það var eins og veröldin stæði kyrr í einhverju endalausu tómi. Þetta hefðu eins getað verið fimm ár sem fimm mínútur. En allt í einu var rykkt í. Og aftur og aftur og aftur. Bara rólegur, hugsaði ég, ekki taka frumkvæðið. Láttu hann smjatta á þessu eins og hann vill. Gerðu ekkert fyrr en honum fer að líða illa og hann ætlar að snúa sér og reyna að losna við bitann. Enn var rykkt í nokkrum sinnum og svo fann ég að fiskurinn fór að ókyrrast, hann lyfti sér í vatninu og seig til hliðar. Nú er stundin runnin upp karl minn, nú rykkir þú í og það fast, hugsaði ég og framkvæmdi hugsanir mínar á augabragði. Ég rykkti feiknalega í, stöngin kengbognaði og ég var óumdeilanlega búinn að setja í lax.

Og ég fékk strax að sjá að þetta var annar stórlaxanna sem höfðu plagað geðheilsu mína síðustu tvær vikurnar. Það var annað sem ég sá strax. Það spýttist blóðgusa frá laxinum. Hann þeyttist af stað, en óslitin blóðrák fylgdi honum. Það dró fljótt af honum og eftir nokkrar mínútur hreinlega  flaut hann dauður í land. Öngullinn var í kokinu og hafði stungist í aðra hálsslagæðina á laxinum. Honum blæddi hreinlega út, þannig að glíman var ólík því sem ég hafði reiknað með og er þá vægt til orða tekið.

Þetta var gríðarlegur bolti, minn stærsti fyrr og síðar og ég held sá stærsti sem veiðst hefur á stöng á Íslandi, en því miður var það ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég fór að velta því fyrir mér. Í þá daga var enginn metnaður að vita nákvæma þyngd eða að skrá veiði. Maður veiddi bara og fékk svo mikið af stórlaxi að þetta þótti raunar ekkert óvenjulegt. Sem dæmi um hversu algengt það var að fá þarna risalaxa, þá hittum við einu sinni Tryggva frá Miðdal þegar hann var að koma úr Dagmálahyl, veiðistað sem fáir nenntu að heimsækja. Hann var með tvo rosalaxa, báða um 30 pund, en við spurðum hann ekki um hversu þungir þeir væru og hann sagði okkar það ekki í óspurðum fréttum. Þetta voru allt saman stórlaxar. En ég sé mikið eftir þessu núna. Ég fór ekki að velta metlöxum fyrir mér fyrr en fjölmörgum árum síðar. Þessi lax var svo stór að þegar hann var kominn ofan í laxabakpokann var ekki rúm fyrir svo mikið sem eina bleikju í viðbót. Þó skagaði afturhluti laxins, allt aftur að gotrauf hátt upp úr pokanum.

Og það var annað sem til kom. Þannig var, að við nýttum veiði okkar þannig að hún fór meira og minna í reyk. Vegna þess hversu bág aðstaðan var við ána til að geyma laxinn þá gerðum við að honum á staðnum og flökuðum hann. Ég hirti hausinn og þunnildin af þessum risalaxi og borðaði þau, henti innvolsinu og blóðinu, en fór með flökin af honum í reykhúsið. Þar voru þau vegin og reyndust vera 37 pund. Já, 37 pund og það er á þessu stigi frásagnarinnar sem vinir mínir fara alltaf að hlægja og segja að núna sé farið að slá út í fyrir mér. En það er með þessa sögu, eins og gjarnan er um veiðisögur. Þær ótrúlegustu eru yfirleitt sannar og svo er í þessu tilviki. Flökin af laxinum voru, án þunnilda, 37 pund. Þá geta menn gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn. Hvað var hann stór nýveiddur? Því miður þá veit ég það ekki og get raunar lítið getið mér til um það. Þetta var hausstór hængur og innvolsið var ægilegur massi. Svo vega sporður og uggar alltaf sitt þótt það sé kannski það minnsta. Svona var nú sagan af laxinum með 37 punda flökin.“