Þó að Þverá/Kjarrá hafi haft vinninginn í tölum í vikutölum angling.is s.l. miðvikudagskvöld þá er Urriðafoss í Þjórsá “Staðurinn” þar sem hvergi er meiri meðalveiði að hafa á hverja dagsstöng. Nú hefur veiðst svo vel að men spyrja sig hvort að talan gæti verið enn hærri, því frá og með þessari vertíð er kominn kvóti á veidda laxa.
Já, það má nú drepa fimm laxa á stöng á dag og þá er veiði lokið, það er mikil maðkveiði þarna og litlar líkur að hægt sé að sleppa farsællega laxi sem hefur gleypt maðkaöngul. Í fyrra var þetta ekki þannig. Menn bara veiddu og veiddu, þannig séð eru miklar hömlur að þessu sinni. Síðastliðinn miðvikudag kláruðu 2 stangir kvótann á 3 klst og hinar tvær kláruðu fyrir hádegishlé, með öðrum þá er óhemju veiði þarna þessa dagana og enginn getur sagt hvað hægt væri að veiða ef ekki væri kvóti. Þrátt fyrir kvótann þá var heildartalan s.l. miðvikudag orðin mun hærri heldur en á sama tíma í fyrra og var þó talað um mok þá. Síðasta miðvikudag voru komnir 577 laxar úr Urriðafossi, en á sama tíma í fyrra voru þeir 435. Út frá þessu er þetta miklu líflegra nú en hafa ber í huga að nú er komin meiri reynsla og veiðimenn farnir að kunna betur á veiðina.