Við Frostastaðavatn.

Veiðikortið fyrir 2021 er komið út. Þar kennir að venju margra grasa. Þar má sjá nýtt glæsilegt vatn á boðstólum og endurkomu gamals  „vinar“. Veiðikortið gefur veiðirétt meira eða minna í alls 36 vötnum og ám. Í glæsilegu fylgiriti kortsins er að finna kort og allar nauðsynlegar upplýsingar og reglur.

Kápan á upplýsingablaði Veiðikortsins 2021.

.Í frétt frá Veiðikortinu segir ma.a.:“Það koma tvö ný vötn inn fyrir komandi veiðisumar, Frostastaðavatn að Fjallabaki og Laxárvatn kemur aftur inn, eftir framkvæmdir við vatnsmiðlun, sem hafa hækkað yfirborðið og gert það að enn betra veiðivatni til stangaveiða.

Veiðikortið hefur verið vinsæl jólagjöf síðustu árin enda höfum við kappkostað við að hvetja veiðimenn og fjölskyldur til að njóta íslensks sumars við falleg vötn. Með Veiðikortið í vasanum geta veiðimenn veitt í 36 veiðivötnum vítt og breitt um landið fyrir aðeins kr. 8.900“.

Frostastaðavatn að Fjallabaki er skemmtileg viðbót hjá Veiðikortinu. Frostastaðavatn er stærst vatnanna í vatnaklasanum sunnan Tungnaár. Um er að ræða frábært veiðivatn sem geymir óvenju mikið af silungi. Mest er þó af smábleikju en inn á milli eru vænir fiskar. Vatnið er því eins og sérhannað fyrir þá sem vilja fara með unga veiðimenn með mjög mikla veiðivon.

Frostastaðavatn er með fallegri stöðuvötnum þessa lands og er þá mikið sagt. Sérstaklega er fegurðin með ólíkindum þar sem hraun hefur forðum daga fossað fram af brúnum og eru í jaðri þess víkur og vogar með ægifegurð. Þar er einnig einhver mesta veiðin. Hins vegar er veiðivon góð um allt vatn og þeir sem leita annað en í hraunið lenda oftar en ekki í skemmtilegum ævintýrum. Annars má lesa meira um staðhætti, gistingu og fleira nýtilegt á heimasíðu Veiðikortsins, www.veidikortid.is