Hanna Björk Hafþórsdóttir með stórfallega hrygnu úr Hofsá fyrir skemmstu. Glöggt má sjá á myndinni hversu vel haldinn 2 ára laxinn er þetta sumarið.

Það er mögnuð veiði í Vopnafirði þessa daganna, og í dag lauk metholl veiðum í Hofsá.  Áin er með sína bestu byrjun í langan, langan tíma og útlit fyrir að hún sé á hraðri leið í sitt gamla form. Og enn bætir í, sterkar göngur og bæði stórlax og smálax.

„Hollið var með 71 lax sem að gerir rúmlega 10 laxa á stöngina. Ég man satt að segja ekki eftir svona holli, að minnsta kosti eru þá fjölmörg ár síðan. Þetta er blandaður lax að stærð, fallegur smálax þó nokkuð enn að ganga af stórlaxi,“ sagði Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Strengs í samtali við VoV í dag.

Selá hefur einnig verið mjög lífleg og fókus margra á hvort að veiði dali vegna nýrra reglna sem banna þyngdar flugur. Ekki hefur borið á því nema síður sé. Áin var með albestu í fyrra og stefnir í það sama nú. „Jájá, sitt sýnist hverjum um þessar reglur hjá okkur en á meðan þetta gefur góða raun, við með uppselda á og allir kátir og glaðir, þá hef ég ekki áhyggjur af því þó að einhverjum finnist þetta vera einhver vitleysa,“ bætti Gísli við.