Stefán Sigurðsson.
Glæsilegur urriði. Mynd Stefán Sigurðsson.

Það berast fréttir héðan og þaðan að og það er sama hvort að fregnirnar berast að norðan eða frá sunnlensku ánum, það er alls staðar nóg að gera, það virðist vera mjög sterk uppsveifla í gangi hjá sjóbirtingsstofnum.

Tungufljót, Harpa Hlín
Harpa Hlín Þórðardóttir með fallega hrygnu úr Tungufljóti. Mynd Stefán Sigurðsson.

Til að mynda Tungufljót, eftir metopnun þar hefur gangur verið góður. Til marks þá voru þau hjón Harpa Hlín Þórðardóttir og Stefán Sigurðsson hjá IO Veiðileyfum  þar í gær og lönduðu sjö fiskum. Bara opnunin í fljótinu gaf álika afla og öll vorveiðin í fyrra og voru menn þó alls ekki ósáttir veiði aflabrögðin þá.

Árni Kristinn Skúlason, Varmá
Árni Kristinn Skúlason með 80 cm hæng úr Varmá á mánudaginn.

Þá hafa þeir hjá SVFR látið vita af því að Varmá sé full af fiski og að fyrstu þremur dögunum hafi 68 fiskar verið færðir til skráningar, mest sjóbirtingur, en einnig eitthvað af bleikju. Stærstu fiskar þar voru 75 og 85 cm, en í gær bætti Árni Kristinn Skúlason veiðileiðsögumaður og félagi í Wichwood teyminu 80 cm drjóla við, fékk hann niður á „Bökkunum“.

Geirlandsá var líka með metopnun og þeir sem hafa komið á eftir opnunargrúppunni hafa verið að gera góða hluti eftir því sem við höfum frétt, þannig fengu þeir sem veiddu 5.-7.apríl 44 fiska, mest á flugu.

Okkur vantar tölur úr Vatnamótunum en þar hefur auðheyrilega verið líflegt og fiskar allt að 90 cm verið dregnir á land. Einn sem við heyrðum af var með 14 fiska eftir eina vaktina og annar 12 stykki á jafn löngum tíma. Reynum að næla í heildstæðari tölur af þessu svæði sem fyrst.

Vatnaveiðin hefur farið heldur rólega af stað og má eflaust „þakka“ það fremur köldum apríl til þessa. Vötnin kvikna seinna en straumvötnin, þannig hefur lítið líf verið á stöðum eins og í Vífilstaðavatni en aftur á móti hafa menn lent í fantaveiði í Mýrarkvísl og Hólaá, sem rennur úr Laugarvatni. Þar heyrðum við af tveimur veiðimönnum sem fóru á vegum IO Veiðileyfa og veiddu fyrir landi Laugardalshóla og höfðu á land 14 fiska, mest urriða. Bleikja er líka á svæðinu og kemur meira inn í veiðina þegar líður á vorið.

Þá er í lagi að skjóta hér inn stubb sem kom á vefsíðu Veiðikortsins og greindi frá veiðimanni sem fór í Hraunsfjörð strax í opnun á Páskadag. Hann kom að íslausu svæði og varð mikið var við fisk. Setti í og landaði vænum birtingi sem var með heilt sandsíli í bumbunni. Þarna gæti glæðst verulega þegar fer að hlýna, sem er reyndar í kortunum á næstu dögum.