Strengir með nýjan vef

Klaus Frimor, Jökla
Jökla er eitt af flaggskipum Strengja

Veiðiþjónustan Strengir hefur opnað nýjan upplýsingavef um þau ársvæði sem fyrirtækið býður upp á. Er vefurinn hinn glæsilegasti, en þó ekki fullbúinn þótt hann hafi verið opnaður.

Í fréttatilkynningu sem barst frá Strengjum segir m.a.: „Nú er komin nýr og glæsilegur vefur á strengir.is  með öllum helstu upplýsingum um þau ársvæði sem við höfum upp á að bjóða. Hægt er meðal annars að sækja þar um veiðileyfi í hnappnum „Veiðileyfi“ og verður reynt að svara samdægurs þeim umsóknum. Vefurinn verður í áframhaldandi vinnslu og á eftir að setja inn t.d. myndbönd og fl. Við vonum við að vefnum verði vel tekið  og stefnt er að því að uppfæra fréttir reglulega, endilega fylgist með og það er spennandi sumar framundan!

Annars hafa stórtíðindi verið tengd Strengjum í vetur, veiðihúsið við Minnivallalæk hefur t.d. verið í algerri yfirhalningu síðustu vikurnar og enn stærra mál er að eftir komandi sumar munu Strengir ekki lengur vera leigutaki Breiðdalsár. Strengir hafa leigt ána um árabil, en hætta sem sagt, en við tekur fyrirtæki í eigu Peters Rippin, sá hinn sami og heldur úti Affalli, Þverá, Eystri Rangá og eystri bakka Hólsár. Fyrirtækið Kolskeggur sér um allt utanumhald á þeim svæðum, en Þröstur Elliðason eigandi Strengja segir að fyrirtæki hans muni vinna náið með Rippin hvað varðar málefni Breiðdalsár.