Falleg mynd tekin neðan við Kistukvísl í Laxá í Aðaldal. Myndin er fngin hjá Matthíasi Þór Hákonarsyni veiðileyfasala á Akureyri.

Eystri Rangá er mikill hástökkvari þessa síðustu viku með 667 landaða laxa og margt af því boltafiskur. Hún er efst á blaði hjá angling.is, skaust upp fyrir Urriðafoss sem gaf prýðilega, en talsvert minna en Eystri Rangá.

Bjarni Júlíusson með gríðarlega væna hrygnu úr Eystri Rangá. Myndina tók Ásgeir Heiðar.

Þetta er gríðarleg veiði í Eystri Rangá og talað hefur verið um að annað eins hafi ekki sést í ánni svo snemma vertíðar. Okkur var þó bent á að þann 6.7 sumarið 2016 hafi verið komnir 1111 laxar á land úr ánni og þá varla farinn að sjást smálax í bland við þá stóru. Þetta má sjá á angling.is, en breytir því ekki að þetta er mikil hrota þarna í Eystri Rangá og vikuaflinn var 504 laxar. Á sama tíma var vikuaflinn í Urriðafossi 80 laxar.

Þessar tvær hér að ofan eru langt á undan öðrum ám, en Það hefur verið stígandi í Ytri Rangá líka og talan þar hækkar hratt eftir fremur rólega byrjun. 200 laxa vika þar að baki og áin í fjórða sæti.

Hér að neðan kemur listinn með heildartölu hverrar ár og nýjustu vikutöluna í sviganum. Þar má sjá að það er víða rólegt og á vestanverðu landinu hefur vatnsmagn verið að minnka hratt. Kominn tími á smá skammt af góðum dembum.

Eystri Rangá        667 (504)

Urriðafoss            589 (80)

Norðurá                404 (92)

Ytri Rangá             328 (200)

Þverá/Kjarrá         275 (34)

Haffjarðará           217 (82)

Miðfjarðará          177 (97)

Langá                     153 (60)

Laxá í Kjós             136 (47)

Laxá á Ásum         131 (71)

Hofsá                     103 (57)

Brennan                  84 (13)

Stóra Laxá               60 (21)

Vatnsdalsá              54 (23)

Jökla                         44 (41)

Það vantar talsvert á listann og löngu ljóst að langt frá því allir sinna þessum lista angling.is á miðvikudagskvöldi. Eru að setja tölur sínar inn fram eftir öllum fimmtudegi. En við getum ekki birt nema það sem liggur fyrir á meðan við erum enn á fótum.

Jóhann Birgisson með fallega hrygnu úr Miðfjarðará. Myndin er fengin af FB síðu Miðfjarðarár.

Markverðar ár sem eiga eftir að detta inn eru Blanda, Laxá í Leirársveit, Hítará, Elliðaárnar, Straumar, Laxá í Aðaldal, Víðidalsá, Haukadalsá, Flóka, Grímsá, Svalbarðsá, Laxá í Dölum, Hafralónsá, Straumfjarðará, Úlfarsá, Leirvogsá, Búðardalsá og Fnjóská. Það er því viðbúið að það verði einhver sætaskipti á listanum eftir því sem fleiri tölur detta inn.

Tölur sem þó eru komnar sýna að all nokkrar ár á vestanverðu landinu hafa verið rólegar. Hafa ber í huga að heitt hefur verið í veðri, mikil sól og minnkandi vatn í þeim landshluta. Norðan heiða eru tölur upp og ofan, Miðfjarðará og Laxá á Ásum nokkuð fínar, en þó að vanti nýja tölu fyrir t.d. Laxá í Aðaldal, heyrðum við í veiðimanni sem var að koma úr ánni og átta stangir mörðu 8-9 laxa á svæðum Laxárfélagsins yfir tvo daga. Og lítið að gerast þar.