Hér er Árni með tröllið. Myndin er fengin af vef SVFR.

Ingimundur Bergsson hjá SVFR greindi frá því á vef félagsins í dag, að einn al stærsti urriði sem veiðst hefur á svæðinu fyrr og síðar hafi komið á land þann 18.7 síðast liðinn. Árni Ísberg fékk einn stærsta urriða sem vitað er um að veiðst hafi í Mývatnssveit þann 18. júlí s.l. Urriðinn var 81 cm að lengd.

Á vefinn skrifar Ingimundur: „Samkvæmt okkar upplýsingum er vitað um einn lengri fisk en sá var 82 cm og veiddist í Geirastaðaskurði 2012. Árni var við veiðar á Hamarssvæðinu ásamt veiðifélaga sínum Óskari Þorsteinssyni. Þeir voru hvort með myndavél né síma meðferðis en þegar Óskar sér hverskonar fiskur hafði tekið hjá Árna flýtti hans sér upp í bíl og sótti símann til að geta fangað mynd af fisknum.

Háfurinn sem þeir höfðu var allt of lítill fyrir svona fisk svo Óskar varð að lyfta honum upp á bakkann með berum höndum. Þeir náðu að mæla hann nákvæmlega á lengdina, 81 cm og síðan var tekin myndataka og höfðinginn fór út í aftur.  Fiskurinn tók strax við sér og virtist hress og tilbúinn fyrir átök við komandi veiðimenn. Fiskurinn veiddist í Hólkostflóa og tók hann nálægt landi í annarri bugt neðan markagirðingarinnar að Hofstaðalandinu.“

Meira má lesa um þennar Mývatnssveitarhöfðingja á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur þar sem fram kemur hvaða flugu tröllið tók og einnig greinir frá öðrum rígvænum sem sami veiðimaður setti í skömmu síðar.