Þeir eru sumir ferlegir, birtingarnir í Kjósinni. Hér er Stefán Sigurðsson með einn slíkan.

Sjóbirtingur fór fyrir nokkra að gera sig gildandi í ám á Suðvestur- og Vesturlandi, en þar virðist hann ganga fyrr í vötnin heldur en í ám á Suður- og Suðausturlandi. Það getur stafað af ýmsu, en birtingar eru farnir að láta sjá sig einnig eystra.

Jón Hrafn Karlsson með 80 cm hrygnu úr Hvannakeldu í Eldvatni. Myndin er af FB síðu hans.

Jón Hrafn Karlsson fór þannig í rannsóknarleiðangur í Eldvatn um helgina og gerði sér lítið fyrir og setti í og landaði 80 cm nýgenginni hrygnu í Hvannakeldu. Fyrstu birtingarnir láta yfirleitt á sér kræla í Eldvatni þegar líða tekur á júlí, eða talsvert fyrr heldur í öðrum ám á svæðinu. Er það hald margra að það stafi af því að Eldvatn er eina áin á þessum slóðum sem rennur beint í hafið. Hinar falla allar í jökulvötn sem virðist tefja göngur sjóbirtinga. Mögulega vegna þess að hann er ljósfælinn og kann vel við dökku kápuna sem jökulvatnið skýlir honum með.

Steinar Karl Kristjánsson birti þessa mynd á FB síðu áhugamanna um Elliðaárnar fyrir skemmstu, 75 cm birtingur í Teljarastreng í Elliðaánum.

Sem fyrr segir ganga þeir fyrr í ár á Suðvestur- og Vesturlandi. Aðal sjóbirtingsárnar eru Laxá í Kjós og Laxá í Leirársveit, en fleiri eru iðnar við að gefa af sér væna birtinga, Elliðaárnar, Korpa, Leirvogsá, Leirá og fleiri. Haraldur Eiríksson þekkir manna best til birtinga í Laxá í Kjós, en þar hafa leigutakar verið með takmarkaða vorveiði sem er fram í mai. Hann segir að Kjósarbirtingurinn sé mun skemur í hafi en gengur og gerist.

„Já þeir eru skemur í Kjósinni. Mikið af hrygningafiskinum s.l. sumar var kominn á engjarnar í opnun 15 júní, þrátt fyrir að hafa ekki gengið niður fyrr en í Maímánuði. Það að bera slíkt saman við ósasvæðin í Skaftafellssýslu þar sem fiskurinn er jafnvel enn í bullandi æti fram í júlí er ekki við hæfi. Skaftfellski stofninn er tækifærissinni sem jafnvel ferðast inn og út af svæðinu í leit að æti. Þetta sýna desember og janúargöngur fiska t.d. í Tungulæk. Mér dettur ekki í hug að segja að fiskurinn á Hrauni í Ölfusá sé nýgenginn. Hann ferðast inn og út í leit að æti þar til hann gengur upp bergvatnsárnar til hrygningar. Að bera saman slíkt athæfi við fiska sem stokkið hafa allt fossasvæði Laxár og eru komnir á hrygningarstaði fyrir Jónsmessu er að bera saman epli og appelsínu.“

Það er freistandi að ímynda sér að sjóbirtingar í nágrannaám Laxár í Kjós hafi sama göngumynstrið, í það minnsta eru í þeim að veiðast sjóbirtingar snemma sumars og síðan fram eftir öllu.