Laxveiðin hefur víðast hvar verið betri í sumar heldur en hörmungarsumarið 2019. Munar sums staður heilum helling, annars staðar minna, en sumar ár eru þó lakari þrátt fyrir að mál manna sé að meira sé af laxi að ganga. Slíkar ár og raunar fleiri hljóta þá að eiga talsvert inni.
Það eru helst ár á sunnan- og vestanverðu landinu sem að eru með umtalsverðan bata. Þær sem eru lakari eru gjarnan á Norðurlandi, en þó eru þar einnig ár sem eru betri en í fyrra.
Við ætlum að skoða nokkrar ár og miða við sambærilega tölu frá 2019 og þær tölur eru að finna á angling.is. Það er þó tveggja daga skekkja þar sem 2019 talan miðar við10.7, en 2020 talan við 8.7. Það ætti ekki að skipta máli í svona skoðun, það er almenna sýnin sem tölurnar sýna sem að við erum að höggva eftir.
Kíkjum fyrst á aflahæstu árnar. Fyrsta talan er 8.7 2020, næsta talan 10.7 2019 og talan í sviganum er plús eða mínus á milli ára.
Eystri Rangá 667 – 405 (plús 262)
Urriðafoss 589 – 502 (plús 87)
Norðurá 404 – 84 (plús 32)
Ytri Rangá 328 – 164 (plús 164)
Þverá/Kjarrá 275 – 140 (plús 135)
Haffjarðará 217 – 133 (plús 84)
Miðfjarðará 177 – 202 (mínus 25)
Langá 153 – 51 (plús 102)
Laxá í Kjós 136 – 42 (plús 94)
Laxá á Ásum 131 – 54 (plús 77)
Næst á blaði eru Elliðaárnar með 119 laxa miðað við 153 í fyrra. Hér er komið dæmi um á sem hlýtur að eiga mikið inni, því að í gærkvöldi voru komnir tæplega þúsund laxar um teljarann á móti 355 á sama tíma í fyrra. Mun meira af laxi, en 44 löxum minni afli á land.
Ef við skoðum fleiri Norðlenskar á heldur en Miðfjarðará sem var eina mínusáin hér að ofan, þó að litlu muni í sjálfu sér, þá var Blanda með 101 lax nú á móti 175 í fyrra, mínus 74 laxar, sem stafar eflaust af því að áin er nú eingöngu veidd með flugu. Víðidalsá og Vatnadalsá eru í smá plús, sú fyrri 78-57 (plús 18) og sú síðari 54-42 (plús 12). Síðan getum við nefnt drottninguna Laxá í Aðaldal, 95-114 (mínus 19) Rólegt þar enn sem komið er. Líkt og í fyrra, þá batnar þegar austar dregur, Vopnafjarðarárnar og Jökla hafa farið mjög vel af stað.