Einar Falur
Við ætlum að svara mörgum spurningum til þess að lesendur geti veitt betur. Mynd Einar Falur.

Vatnaveiðin er að sigla inn í sinn besta tíma og laxveiðin er byrjuð og fer vel af stað. Við ætlum á næstunni að fara yfir sviðið og segja frá því hvernig best sé að ná góðum árangri. Sérfræðingar eru kvaddir til. Fjölmörgum spurningum svarað.

                                       Veiddu betur – silung

Það vill svo til að Litróf prentaði fyrir örfáum árum, 3-4, bæklinga sem ritstjóri yfirsá, en bæklingar þessir fóru aldrei í neinskonar dreifingu, hvernig sem á því stóð. Þeir hétu Veiddu betur – silung og Veiddu betur – lax. Einnig kom út strandveiðibæklingur, en það er önnur saga. Í Silungsveiðikverinu sögðu þrír sérfræðingar, Jón Eyfjörð, Bjarki Már Jóhannsson og Ríkarður Hjálmarsson frá því hvernig þeir glímdu við hin margvíslegu skilyrði sem mæta silungsveiðimönnum á veiðislóð. Ritstjóri leggur orð í belg af og til þar sem hann telur sig hafa eitthvað fram að færa. Jón Eyfjörð er með skammstöfunina JE, Bjarki Már er BMJ og Ríkarður RH. Ritstjóri verður með sitt gamalgróna –gg þegar svo ber undir.

Öll tilsvörin hafa staðist tímans tönn, sem vonlegt var því að það er ekki langt síðan að spurningarnar voru lagðar fyrir umrædda sérfræðinga.

Reykjadalsá, Eyvindarlækur, Einar Falur
Veiðimaður og andarungi við Eyvindarlæk, neðsta hluta Reykjadalsár. Mynd Einar Falur.

                                       Veiddu betur – lax

Og það sama má segja um þá sem lögðu okkur lið með laxveiðina.

Jafnvel reyndustu veiðimenn lenda í því að velta vöngum yfir því hvað skuli til bragðs taka við hinar ýmsu kringumstæður. Þó að allskonar, eins og útiveran, félagsskapurinn og fleira því tengt skipti gríðarlegu máli þegar haldið er til veiða, þá er það ævinlega undirliggjandi að menn vilja setja í fisk. Margir eru reynslulitlir, aðrir kunna meira, en síðan er hópur sem kalla má sérfræðinga. Við höfum kallað nokkra til hérna til að ljá lesendum reynslu sína.

Það sem hér verður gert er að brjóta upp þær margvíslegu aðstæður sem veiðimenn standa frammi fyrir. Veðurskilyrði, skýjafar, vatnshæð, vatns- og lofthiti. Samspil þessa alls. Enn fremur stungum við að sérfræðingunum hinum ýmsu spurningum varðandi val á agni, flugustærðum, línum og fleira með tilliti til framangreindra þátta.

Það er von okkar að lesendur geti nú brugðist rétt við, sama hvað blasir við þeim á veiðistað. Þeir laxveiðisérfræðingar sem eru lesendum innan handar eru í hópi þeirra allra snjöllustu sem finna má hér á landi og eflaust þótt víðar væri leitað. Það eru þeir Ásgeir Heiðar, Stefán Sigurðsson og Haraldur Eiríksson. Nöfn þeirra verða skammstöfuð í framhaldinu, Ásgeir verður ÁH, Stefán verður SS og Haraldur Eiríksson verður HE. Ritstjóri er ekki einu sinni nálægt því að hafa tærnar þar sem þessir kappar eru með hælana í vöðlunum, en hefur samt skotið inn hinu og þessu úr reynslubanka sínum. Koma þá stafirnir gg.

Þessi kynningartexti er hafður inni á almenningnum til þess að allir lesendur okkar geti kynnt sér hvað boðið verður uppá á næstunni, en greinarnar verða inni á áskriftarsvæðinu sem kennt er við Veiðislóð. Við hvetjum lesendur til að fylgjast vandlega með næstu daga og vikur er við rennum þessum greinum hratt og vel frá okkur. Við byrjum á morgun, fimmtudaginn.