Urriðafoss, Þjórsá
Urriðafoss séður frá austurbakkanum, þarna eru ekki síður vænlegir veiðistaðir. Myndir eru frá IO.

IO Veiðileyfi, Iceland Outfitters, hafa tekið á leigu svæði Þjórsártúns í Þjórsá og bjóða í sumar uppá veiði í Urriðafossi að austan! Vel er þekkt ævintýrið í Urriðafossi að vestan síðasta sumar sem kom út sem besta laxveiðisvæði landsins m.t.t. dagsveiði á hverja stöng. Hér gæti annað eins verið í uppsiglingu.

Þjórsá, Þjórsártún
Fallegar breiður Þjórsártúnsmegin.
Þjórsá
Veiðilegar breiður.

Veiðin í landi Þjórsártúns verður með sama sniði og í Urriðafossi í fyrra, þ.e.a.s. að veitt verður á stöng þá daga sem netin eru ekki niðri. Þjórsártúnsmegin eru gífurlega gjöfular netalagnir, líkt og Urriðafossmegin, þannig að ekki þarf að búast við öðru en að vel gangi með stangaveiðina, en þetta fyrsta sumar er verkefnið kallað “tilraunaveiði”.

Þjórsá
Þar sem er var, þar er lax!

Í skeyti sem við fengum frá Stefáni hjá IO segir m.a.:  “Það er okkur mikill og sannur heiður hefja sölu á veiðisvæðinu í landi Þjórsártúns sem er í raun Austurbakki Þjórsár á móts við Urriðafoss. Þetta er fyrsta ár sem stangveiðimenn fá tækifæri að spreyta sig með stöng á svæðinu og er einhverskonar tilraunaverkefni og er veitt þá daga sem netin eru ekki í ánni. Við hófum samskonar verkefni í fyrrasumar fyrir landi Urriðafoss sem hreinlega sló öll met. Veiðisvæði Þjórsártúns er um ca 3 km langt og er mjög glæsilegt ásýndar. Árlega hafa veiðst þúsundir laxa í þjórsá í gegnum tíðinna svo það er allveg tilraunarinnar virði að prófa stöngina, verðinu verður stillt í hóf og við vonum að sem flestir komi og reyni veiðina á þjórsártúni. Alls eru 4 stangir seldar fyrir landi Þjórsártúns og skiptist veiðisvæðið í tvennt efri hluta og neðri hluta, lagt er upp með 3 klst skiptingum og eru 2 stangir á hvoru svæði.“