Hnúðlaxapar sem Óskar Páll veiddi í Fögruhlíðarósi og bætti síðan tveimur til viðbótar við. Mynd ÓPS

Það berast á fleiri fréttir af hnúðlöxum í íslenskum ám og svo virðist sem að þeir séu komnir til að vera. Veiðikappinn góðkunni Óskar Páll Sveinsson lenti heldur betur í stórræðum í Fögruhlíðarósi í morgun og landaði fjórum slíkum löxum í beit.

„Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að fyrstu laxarnir mínir á þessu sumri yrðu hnúðlaxar. Hvað þá að setja í fjóra slíka, en það var nú samt raunin,“ sagði Óskar Páll í skeyti til VoV. Aðspurður hvernig væri að etja kappi við hnúðlax, svaraði Óskar: „Þetta eru fjörugir fiskar sem negla fluguna með látum. Þessir tóku allir bleikan Dýrbít. Ég tel að þetta séu ekki bestu laxfiskarnir til átu, en ég ætla að prófa að setja þá í reyk og sjá hvað kemur útúr því.“