Það er ekki lengra í nýja vertíð heldur en næsti miðvikudagur, 1. Apríl, en venju samkvæmt opna fjölmargar ár fyrir veiði á sjóbirtingi, en einnig nokkur svæði sem hafa staðbundinn silung. VoV heyrist að víða verði opnað með hefðbundnum hætti, en nú er farið að bera á ströngum umgengnisreglum í veiðihúsum. SVFK reið á vaðið, en reikna má með því að fleiri leigutakar taki slaginn.

Geirlandsá, sem SVFK leigir, opnar á miðvikudaginn og á vefsíðu félagsins, www.svfk.is má sjá sundurliðaðan lista yfir umgengnisvenjur sem eiga að koma í veg fyrir að veiðimenn smitist eftir að hafa komið í húsið á eftir einhverjum sem kann eða kunna að bera veiruna. Þar eru reglur um hreinsun snertiflata, sprittun, öflugri frágang á veiðihúsinu í lok veiðiferðar m.t.t. þrifnaðar og ýmislegt fleira. Best fyrir lesendur að kíkja á heimasíðu SVFK og þar gætu aðrir leigutakar sem eru ekki farnir að huga að þessum málum fengið góða skýrslu um hvernig skal ganga um veiðihúsið. Ekki kæmi á óvart þó að þessar ströngu reglur myndu ná langt inn á sumarið, jafnvel til loka vertíðar, en það kemur allt í ljós.

VoV hefur heyrt að flest svæði verði opnuð, í það minnsta Geirlandsá, Tungufljót og Tungulækur, en einnig Litlaá og Húseyjarkvísl og ugglaust fleiri, enda eru það mörg svæði sem opna á miðvikudaginn.