Hólaflúð, Jökla
Hinn forkunnarfagri veiðistaður Hólaflúð. Mynd Snævarr Örn.

Það hefur verið í fréttum að yfirfall í Blöndulóni sé um það bil að rústa vertíðinni í Blöndu með yfirfalli óvenjulega snemma sumars. Menn rýna í veðurkortin, en hvort sem það verður nokkrum dögum fyrr eða seinna þá er staðan slæm. En það er önnur á sem að er undir sömu sök seld…og hvernig ætli staðan sé þar fyrir sumarið?

Við erum að tala um Jöklu og þar hefur yfirfall aldeilis skemmt fyrir á fyrri árum, m.a. skemmt heilt sumar þar sem horfur voru á metveiði. Leigutaki Jöklu er Þröstur Elliðason og aðspurður sagði hann: „Ég hef heyrt um horfurnar í Blöndu og það er glatað. En sem betur fer er staðan hjá okkur í Jöklu betri. Líklega, eins og staðan er, erum við örugg fram í miðjan ágúst, allavega.“