Smiður að störfum við Vatnsárbústaðinn í vikunni.

Veiðihúsið við Vatnsá og Heiðarvatn í Heiðardal er í gegnumtöku þessa daga og vikur. Áin og vatnið eru auðvitað vel þekkt, en aðbúnaðurinn kominn vel til ára sinna og nú á að betrumbæta.

Veiðihúsið er það sama og ritstjóri kom að og gisti í fyrir ríflega 30 árum. Pínulítið, en afar huggulegt. Kröfurnar í dag eru þó stærri og nú eru eigendur að bregðast við því. Til þessa hefur kofinn boðið uppá þrjú örsmá herbergi og rými sem hýst hefur sófa og eldhúskrók. Núna er búið að fjarlægja verönd við húsið og þar á að koma lenging sem inniheldur m.a. stækkun á herbergjum og öðru rými. Þá er í bígerð að smíða smáhýsi á lóðinni með tveimur svefnherbergjum.

Framkvæmdir þessar munu stórlega auka gistigæði við Vatnsá og Heiðarvatn. Þeir sem hafa stundað þetta svæði um árabil elska gamla kofann, en munu finna fyrir því þegar aðbúnaður batnar, hvað það skiptir miklu máli.