Áhyggjur af vatnsleysi óvenju snemma á ferð

Gljúfurá, Fjallgirðing
Hættir bráðum að renna! Gljúfurá við veiðistaðinn Fjallgirðingu. Myndin er frá þurrkasumrinu 2017.

Laxinn er farinn að láta á sér kræla við strendur landsins, hann hefur sést í Laxá í Kjós og er ugglaust víðar kominn. En það er ekki laust við að ýmsir hafi nú vaxandi áhyggjur af árferðinu. Það er gott fyrir seiðin, en fyrir veiðimenn lítur ekki eins vel út.

Vatnsleysi er nefnilega farið að herja á veiðiár víða á landinu, ekki hvað síst á Suðvestur- og Vesturlandi. Einn reynslubolti sem VoV ræddi við í dag sagði að í gær hefði Norðurá verið 10-11 gráður og vatnsmagn aðeins brot af því sem búast mætti við undir lok mai. „Menn hafa gjarnan talað um að þegar birkið er byrjað að opna sig í Norðurárdalnum, þá sé laxinn farinn að ganga. Menn verða með langa tauma og örsmáar flugur frá opnun. Enga sökkenda eða þyngdar túpur og vísast munu menn þurfa að leita að laxi upp eftir öllum dal. Með þessu áframhaldi verður komið hálfgert haust í ána um og uppúr hásumri,“ sagði viðkomandi. Hann bætti við að á leið sinni norður í land hefði hann tekið eftir því að nánast enginn snjór sé eftir á Holtavörðuheiði.

Það sem getur komið til bjargar er auðvitað rigningarsumar af svipaðri stærðargráðu og í fyrra. Engir nema veiðimenn munu óska slíks yfir land og þjóð yfir hið stutta sumar. En engu að síður gæti farið svo að veiðiskapur verði nokkuð háður veðurguðunum, en menn eru ýmsu vanir í þeim efnum, m.a. þurrkasumrum.