
Veiði hófst í Hofsá og Selá í Vopnafirði í morgun og var almenn ánægja með gang mála. Ár þessar opna seinna en flestar, en það er spurning hvort ekki mætti opna fyrr, því í t.d. Hofsá, urðu menn varir við laxa á nánast öllum svæðum sem reynd voru.

Ratcliffe fjölskyldan opnaði Selá eins og síðustu sumur og Julia Ratcliffe veiddi fyrsta laxinn í ánni af alls fimm sem landað var. Sett var í fleiri sem sluppu. Í Hofsá var það sama uppi á teningnum , fimm komu á land og fiskur víða. Þar er aðeins veitt á 4 stangir á 7 svæðum og mál manna að það taki menn 3-4 vaktir til að skanna ána fullkomlega, en útlitið sé harla gott.


„Skilyrði voru eins og best verður á kosið, gott veður og vatn í rúmlega meðallagi í báðum ánum,“ sagði Gísli Ásgeirsson hjá Veiðiklúbbnum Streng í skilaboðum til VoV og bætti við mest hafi verið um vel haldna tveggja ára laxa að ræða, sá stærsti var 93 hængur sem Albert Jónsson veiddi í Fossi 2 í Hofsá.
 
             
		








