Stórglæsileg Hofsárhrygna. Myndin er fengin af FB síðu Árna Baldurssonar.

Fjölmargir áhangendur Hofsár hafa fylgst vel gangi mála hennar síðustu árin. Laxastofn árinnar hefur gengið í gegn um þykkt og þunnt og síðustu sumrin verið það sem kallast „lægð“. En nú virðist eitthvað annað vera í gangi. Áin er ein besta á landsins í sumar þegar kemur að meðalveiði á dag á stöng.

Áin er ekki fræg að ósekju. Lengi verið ein besta og fallegasta á landsins. Oftar en ekki verið um og ofan við fjögurra stafa töluna. En hún er viðkvæm fyrir áföllum eins og margar aðrar, hún fékk t.d. rækilega á baukinn eftir kludana miklu 1979 og 1980. Það kom hrun og það tók ána all nokkur ár að hjarna við. Þá voru það flóðin á síðasta áratug, tvö, eitt að vetri, annað að vori. Áin fór á hliðina.

Haraldur Jónsson á Ásbrandsstöðum hefur um mörg liðin ár verið í stjórn Veiðifélags Hofsár, ritari allra síðustu árin. Hann segir: „Hins vegar tel ég að Hofsá þurfi stuðning. Það hefur verið öldudalur síðustu árin þó að áin hafi verið að koma aftur til hægt og rólega. Þetta má rekja til ofsalegra flóða sem komu 2013 og 2014. Þessi flóð höfðu mikil áhrif á lífríkið. Allur neðri hluti Hofsár er smágrýttur og þessi flóð skoluðu burt botngrjótinu á stórum svæðum þar sem hrygning var mikil. Það geta komið flóð í Selá en hún er með grófari botn sem veitir seiðum betra skjól. Af þessum sökum þykir mér spennandi verkefnið sem sett hefur verið á laggirnar í samvinnu við Bjarna Jónsson fiskifræðing, þar sem hrogn eru grafin á heppilegum stöðum sem ekki hafa nýst sem búsvæði. Slíkt hefur borið árangur víða og útlit er fyrir því að hið sama megi segja um Hofsá.“

Fossinn fallegi séður úr lofti. Mynd Einal Falur.

Jón Magnús Sigurðarson á Einarsstöðum er formaður VH. Honum er tíðrætt um stöðu Hofsár og hvernig áin hefði farið útúr flóðunum títtnefndu, 2013 og 2014, en í framhaldi af flóðunum varð áin fyrir áfalli. „Annað flóðið kom að vetri, hitt að vori. Vorflóðið var alveg sérstakt. Það var mikill lofthiti og að sama skapi mjög hvasst í veðri. Þegar leið á daginn var eins og það kæmi veggur niður gljúfrin fyrir ofan, bara æðandi veggur. Maður gat séð hvernig snarhækkaði í ánni með hverri mínútunni, krafturinn var ægilegur og fór langt með að fylla dalinn. Það var eins og allan snjó á afréttinum tæki upp á nokkrum klukkustundum í þessum mikla hita. Fyrir neðan fossgilið er Hofsá mjög viðkvæm fyrir svona lagað, eyrar og malarbotn sem ýmist færðist úr stað eða hreinlega skolaðist burt. Mikilvægar hrygningarstöðvar á stóru svæðu fengu gríðarlegan skell og áin var víða nánast óþekkjanleg þegar ósköpunum slotaði. Það var ýtt upp görðum til að verja farveginn og svo þarf áin að laga sig sjálf með tímanum. Það var búist við því að göngur myndu minnka fyrstu árin á eftir, en svo er þetta farið að taka aftur við sér sem betur fer, það sýna veiðitölur glögglega, þettahefur batnað síðustu sumur þó að hægt fari. Svo er það þannig að það hafa alltaf verið náttúrulegar sveiflur og þó að fylgst sé með seiðabúskap og hann virðist vera að taka við sér, þá bætist við að aldrei getum við fyrirséð hvernig seiðunum reiðir af þegar þau koma í hafið“

Og í framhaldi af þessum vangaveltum stjórnarmannanna má skoða tölur Hofsár. 2018 töldu menn sig sjá bata, hægan þó. Það sama 2019, heildartalan þá betri en samt þótti mönnum ganga hægt. Þetta lítur svona út, heildartala 2018, 697 laxar, heildartala 2019 711 laxar. Nú, miðað við 5.ágúst 2020 komnir 546 laxar á land og síðustu vikur verið meðalveiði upp á um það bil þrjá laxa á stöng á dag. Aðstæður geta auðvitað versnað og þess vegna dregið eitthvað úr vegi. En dragi úr veiði þetta árið verður það ekki út af fiskleysi.