Heiðarvatnið í góðum gír

Fjör í Heiðarvatni þessa daganna

Veiði hefur gengið prýðilega í Heiðarvatni í Heiðardal ofan Mýrdals þrátt fyrir fremur kalt vor og sumar til þessa. Þó að lang sé í að áin opni fyrir laxveiðimenn þá hefur sést lax í henni, óvenju snemma. Þeir sem veiða í ánni í sumar ganga inn um dyr á gerbreyttu veiðihúsi, þar hefur öllu verið umturnað og stækkað.

En að vatninu, það hefur verið stundað með höppum og glöppum, samkvæmt veiðibók hefur flestum gengið nokkuð vel. VoV kom við seinni partinn og landaði 6 fiskum á skammri stundu, þar af tveimur sjóbirtingum sem eiga að vera löngur farnir, annar þeirra var 64 cm, hinn smærri. Þá voru þrír urriðar , 50, 48 og 45 cm og svo fremur lítil og pen bleika.

Líklega er vatnið þó seint til vegna kulda í vor, en það stendur til bóta, lítið verður veitt fram að mánaðamótum samkvæmt upplýsingum Ásgeirs Arnars Ásmundssonar umsjónarmanns, þó er eftir miklu að slægjast, þetta er með allra bestu vötnum landsins og talsvert af mjög vænum fiski í bland við þá smærri.