Ber æ meira á birtingi fyrir austan

Það er farið að bera æ meira á sjóbirtingi í ám í Vestur Skaftafellssýslu. Þó er vertíðin varla hafin. Nýjustu fréttir eru frá Fitjaflóði í Grenlæk og Eldvatni í Meðallandi.

Jón Hrafn Karlsson, einn legutaka Eldvatns hafði t.d. þetta að segja: „Það er óhætt að segja að sjóbirtingurinn sé mættur í Eldvatnið. Tók nokkur köst eftir kvöldmat og landaði 62cm hrygnu í Villa , 63cm hrygnu í Þórðarvörðuhyl og endaði svo á að landa 75cm hrygnu í Hundavaði.“

Og Óskar Færset, stjórnarmaður hjá SVFK er staddur við Fitjaflóðið og sagði eftirfarandi: „Er staddur í Flóðinu í Grenlæk og er búið að leggja nýjan veg um svæðið og ættu veiðimenn að komast à litlum bílum um svæðið. Bara fràbært, ekkert vatn og ekkert vesen, fiskur à svæðinu. Þetta er mitt upphaldsveiðisvæði, og tala ekki um að færðin um svæðið er svona góð. Vorum komnir með tvo eftir fyrsta klukkutímann, 12 og 5 punda.“