Stokköndin sem um er rætt!

 

Eftir að hafa gengið sig upp að hnjám í leit að kannski einni eða engri rjúpu, kannski lagt að baki 15 til 20 kílómetra, er nauðsynlegt að gera vel við sig í mat og drykk þegar heim er komið. Bjarni Júlíusson fyrrum formaður SVFR og veiðimaður af Guðs náð kann þá list. Maður vill ekki fórna rjúpunum, ef einhverjar eru, því þær eiga að vera til jólanna. En það má nýta meðaflann, þá getur veisla verið í vændum.

„Já, veiðimenn vita að það er fátt betra en að ljúka góðum veiðidegi með góðri máltíð, og hjá mér var þetta ekki af verra taginu í síðasta túr, síðustu rjúpnahelgina. Nýskotin stokkönd og svo kom toppönd aðeins við sögu,“ segir Bjarni og gaf okkur síðan lýsingu á veiðidagsveislunni.

Bjarni og ungfrú Dimma.
Bjarni og ungfrú Dimma.

Lærin af stokköndinni elduð upp á „confit“, þar sem þau voru tekin, sett í olíu (eða andafitu) og elduð á lágum hita í langan tíma. Bjarni hafði þau á 100 gráðum í þrjár klukkustundir. ´“Ég kryddaði þau með salti og pipar og örlitlu rósmaríni. Þannig urðu þau mjúk og bráðnuðu upp í manni. Með þessu hafði ég saffransósu, rauðkál og maisbaunir,“ segir Bjarni.

Saffransósan? „Hún er heimagerð. Soðinn er upp andakraftur (lifur, fóarn, háls og svoleiðis) Hálfur kjúklingateningur, salt og pipar. Saffrankrydd soðið með. Eins og ein teskeið af saffranþráðum , allt saman bakað upp. Bon appetit!“ segir Bjarni.

Þeir sem að drekka ekki áfenga drykki mega vita að malt/appelsín er gott með þessum rétti, hvað þá bara hreint og klárt íslenskt vatn. En mörgum finnst villibráð ekki gera sig fullkomlega nema að með henni sé rétt valið vín. Hvað segir Bjarni um það: „Þeir sem kjósa vín með villibráð vilja helst létt rauðvín með þessum rétti, t.d. Pinot Noire, en í þetta skipti átti ég til Shiraz sem að mér fannst bara ekkert síðra.“

Að lokum er þess að geta, að allt það hráefni sem í þennan rétt fer (nema andalærin) fæst í Þín Verslun/Melabúðinni vestur í bæ. Sjá: https://is-is.facebook.com/Melabúðin-Þín-verslun

Svo er lítil skemmtileg hliðarsaga hér á ferð. Veiðifélaginn var ungfrú Dimma, sem er fjögurra ára gömul Labradortík. Henni þykir veislumatur góður og það bar vel í veiði fyrir hana líka, því Bjarni hafði skotið toppönd á Stóru Langadalsá. Toppöndin er ekki alveg eins bragðgóð og hinar hefðbundnari endur, smá lýsisbragð af henni, líklega vegna þess að hún étur fiskmeti. En ungfrú Tinnu er slétt sama um slík smáatriði og hún gerði soðnum og ókrydduðum toppandarbringunum góð skil.

Svona á sum sé að gera þetta, allir sáttir, ekki hvað síst vegna þess líka, að veiðin gekk þokkalega og síðustu rjúpurnar sem uppá vantaði í jólamatinn náðust á lokametrunum.

Vínið með réttinum

VoV mun vera að venju með vínábendingar með þeim villibráðarréttum sem við birtum og að þessu sinni er það Hafliði Loftsson eigandi Ber ehf, heimasíða www.ber.is  sem að velur bestu vínin sem honum dettur í hug með þessum sérstaka rétti Bjarna Júlíusonar. Hafliði hefur orðið:

Þetta fer vel með stokköndinni.
Þetta fer vel með stokköndinni.
Og þetta líka....
Og þetta líka….

„Eins og Bjarni minnist á, þá er Pinot Noir klassískur félagi andar [það hlýtur að vera orðaleikur þarna einhvers staðar ], þó sérstaklega aliandar. Einn af okkar Pínóum kemur til greina en það er Anakena Pinot Noir frá Chile, sem er ívið kraftmeiri og dekkri en hefðbundnir (ódýrir) Búrgúndarar (þeir góðu eru ofboðslega dýrir). Ilmur og bragð er nokkuð dæmigert fyrir nýjaheims P.N., jarðarber, smávegis sedrusviður (reykur), vottur af  jörð og blómum.

Annað vín sem mér finnst koma til álita er Sarría Reserva frá Navarra, millikraftmikið en með ágætisfyllingu. Þarna er á ferð Cabernet Sauvignon í spænskum stíl. Nokkuð þétt í bragði, mjúk eik, þroskuð skógarber og krydd (negull, kanell,…).

Það eru eiginlega tveir skólar varðandi öndina, annað hvort Pinot Noir eða Cabernet Sauvignon, sem er áhugavert vegna þess hvað þessar tvær þrúgur eru gerólíkar.“