Jón Sigurðsson, eldislax
Jón Sigurðsson með laxinn sem fer í skoðun sérfræðinga á næstunni. Mynd er frá Jóni sjálfum.

Jón Sigurðsson dró að landi lax í Laxá í Aðaldal í vikubyrjun sem myndin bendir ótvírætt til að sé úr eldi. Þetta er ekki sá fyrsti í sumar, en fyrir skemmstu greindi Skessuhorn frá því að lax með sömu útlitseinkenni hefði veiðst í Straumunum í Hvítá.

En að laxi Jóns. En að fréttinni af laxi Jóns úr Laxá, hann sendi okkur pistil þar um og þar stóð: „Það var búið að vera dræm taka i allri Laxánni s.l. tvo daga enda 24 stiga hiti og sól. Um kl.21:30 á sunnudagskvöldið var að flæða að fyrir neðan fossa og hitinn hafði dottið niður. Ég fékk góða töku og hélt að þar væri kominn lax sem ég gæti fagnað og sleppt að viðureign lokinni. Nei, þetta var eldislax og einn helsti óvinur okkar laxveiðimanna. Sorgardagur var runninn upp í huga mér.“

Og ekki nóg merð það, Jón skrifaði enn fremur: „Ég hafði nýlega verið ásamt Sonju dóttur minni við veiðar í Bíldsfelli í Soginu, nánar tiltekið við efsta veiðistað, Útfallið. Hún setti i fisk sem við héldum að væri væn bleikja en reyndist regnbogasilungur. Er þetta framtíðin sem bíður okkar veiðimanna og unnenda íslenskrar náttúru, regnbogasilungar og eldislaxar? Í huga mínum er ég uggandi um framtíð okkar Íslendinga og ekki sáttur við tilhugsunina. Í okkar fallegu og hreinni náttúru, sem við viljum selja ferðamönnum aðgang að með annarri hendinni, þá erum við um leið að eyðileggja hana með hinni hendinni. Stöldrum við og hugsum um framtíð barna og barnabarna okkar.“

Svo mörg voru þau orð Jóns Sigurðssonar. Eins og við gátum um í byrjun fréttar þá greindi Skessuhorn frá eldislaxi í afla veiðimanna í Straumunum í Hvítá í Borgarfirði fyrir skemmstu og regnbogasilungar hafa líkt og í fyrra verið að veiðast víða. Það sem einnig er athyglisvert við þessa tvo laxa er hvar þeir veiðast. Þeir komu ekki fram í ám í námunda við þau sjókvíaeldi sem starfrækt eru, á Vestfjörðum eða Austfjörðum. Eldismenn hafa gjarnan bent á að eldi sé aðeins leyfilegt á takmörkuðum svæðum þar sem villtir laxastofnar eru ekki stórir eða sterkir, en laxveiðimenn og veiðiréttareigendur bent á á móti að eldislaxar hafi sporð og geti farið hvert sem þeir vilja. Í þessu tilviki dúkkuðu þeir upp í Skjálfandaflóa og Borgarfirði.