Skilyrðin. Segir meira en mörg orð.
Éljabakkinn genginn yfir og fiskur á um leið.

Þá eru komnar fréttir frá opnun Litluár í kelduhverfi, sem opnaði 1.apríl eins og mörg önnur veiðisvæði. Þrátt fyrir að aðstæður hafi verið ömurlegar og menn varla geta staðið lengur en tíu mínútur í einu út í á áður en miðstöðin í bílnum kallaði, var um eða yfir 100 fiskum landað! Vel gert, enda áin sérstök eins og allir vita og smekkfull af fiski.

Á FB síðu Litluár stóð m.a. eftirfarandi: „Segja má að aðstæður við opnun Litluár hafi verið með alversta móti veðurfarslega. Veðrið var slíkt að veiðimenn gátu ekki verið lengi að í einu vegna kulda, snjókomu og vindkælingar.

Glæsilegur urriði úr Litluá. á opnunardaginn.

Því er það ánægjuefni og lofar góðu fyrir veiðisumarið að rétt í kring um 100 fiskar veiddust fyrsta daginn þótt ekki hafi verið mikið veiðiálag. Höfðu veiðimenn á orði að fiskurinn sé vel haldinn og greinilega haft nóg æti enda veiddust þó nokkrir fiskar yfir 70cm. Ekki viðraði vel til myndatöku af fiskum enda veiðimenn líka varkárir með að taka fiskinn mikið upp úr volgu vatninu í þessu frosti.“ Þá kemur fram að myndirnar sem birtust á FB síðu Litluár og VoV fékk að láni þaðan séu frá Helga Jóhannessyni og Sigurði B.Sigurðssyni.