Jón Þór Júlíusson með glæsilega hrygnu úr Stapa. Myndin er frá FB síðu Hreggnasa.

Veiði hófst í gærmorgun í hinni stórfenglegu Hafralónsá í Þistilfirði og voru þrír dregnir á land þá um morguninn þrátt fyrir að skilyrði teldust erfið, en eins og sjá má á myndunum þá er gríðarlega mikið vatn í ánni.

Árni Heiðberg og Jón Þór með fallega hrygnnu.

Jón Þór Júlíusson hjá Hreggnasa, sem er leigutaki árinnar sagði í FB færslu að mikið vatn væri í ánni og að tveir laxar hefðu veiðst í Stapa og einn í Gústa. Allir voru stórir og silfurbjartir. Gústi er foss sem oft tefur laxinn vegna vatnshæðar og/eða hitastigs, en Stapi er skammt neðan Gústa, báðir tveir stórfenglegir í gljúfri þar sem menn fikra sig niður með köðlum.

Harpa Hlín Þórðardóttir með boltahrygnu úr Laxá í Dölum. Mynd Stefán Sigurðsson.

Þá greindi Jón Þór einnig frá því að Laxá í Dölum hefði opnað á sama tíma og sex laxar hefðu verið dregnir að landi á fyrstu vaktinni og tveir til viðbótar hrist sig lausa. Þarna var um að ræða blöndu af boltalöxum og smálöxum.