Ásta Dís Óladóttir með 94 cm hæng úr Blöndu í morgun. Myndina tók Höskuldur Birkir Erlingsson og hana má finna á nýrri FB síðu Blöndu og Svartár.

Blanda hefur verið að skila stórum löxum á síðustu vöktum, 101 cm í gær, 94 cm í morgun. Það eru stórir fiskar á sveimi þarna, því að tveir til viðbótar sluppu í morgun.

„Það komu fimm á land í morgun, þar á meðal einn 94 cm og tveir smálaxar. Það var Ásta Dís Óladóttir sem veiddi þann stóra, gríðarlega fallegan hæng á Breiðunni að norðan. Ásta lenti í ævintýri í báðum Dömmum þar sem að hún setti í stórlaxa sem að misstust báðir tveir eftir harðar glímur. Veiðimenn töluðu um það að sést hefði til smálaxa á Breiðunni og tveir slíkir náðust á land, sagði Höskuldur Birkir Erlingsson í samtali við VoV i dag.

101 cm hrygna úr Blöndu í gær, einn sá stærsti á landinu það sem af er, annar slíkur kominn úr Víðidalsá. Myndin er fengin af FB síðu Blöndu og Svartár.

Höskuldur bætti við að stærsti lax sem veiðst hefur það sem af er sumars í Blöndu hafi veiðst í gær á Breiðunni að sunnan. Laxinn tók neðst í gilinu rétt við aðal tökustað Breiðunnar. Reyndist hann vera 101 cm. Veiðimaðurinn Pétur Hafsteinn Pálsson kvað laxinn hafa tekið svartan Frances með kón. Hefði laxinn lagst þungt í, en ekki tekið neinar rokur og hefði náðst að lempa hann upp á sandeyrina við Klapparhorn.