Eiður Pétursson, Laxá í Aðaldal
Þessi mynd birtist á FB síðu Nesveiða í Laxá í Aðaldal, Eiður Pétursson með 98 cm hrygnu. Á þessum árstíma þarf vart að efa að hún er yfir 20 pundunum þó að kvaðinn frægi samþykki það ekki.

Lengi er von á einum, jafnvel tveimur, en nú fara laxveiðiárnar að loka, í síðustu viku voru komnar þrjár lokatölur og við vitum að fleiri hafa lokað síðan. Enn eru þó nokkrar opnar og stórlaxar hafa látið á sér kræla.

Til að mynda veiddist 98 cm hrygna á Nesveiðum Laxár í Aðaldal. Veiðin í Laxá hefur verið mjög róleg, en stóru laxarnir hafa glatt menn að venju, þeir eru kannski færri en í fyrra, en þeir eru þarna og menn geta ævinlega haldið í vonina. Það var Eiður Pétursson sem að datt í lukkupottinn á Hólmavaðsstíflunni í gærkvöldi þegar 98 cm hrygna tók Munroe Killer fluguna hans. Eins og hrygnurnar fitna með þroska hrognanna, er varla vafi að þessi fiskur hefur verið um eða yfir 20 pund.

Og hrygnurnar láta til sín taka á haustin ekki síður en hængarnir, því að fyrir fáeinum dögum kom 97 cm hrygna á land úr Kötlustaðahyl í Vatnsdalsá. Sú tók tommulangan Frigga.

Við höfum þrjár lokatölur á hreinu og fleiri eru væntanlegar. Norðurá endaði með 1692 laxa, sem er 27 löxum minna heldur en í fyrra þegar 1719 laxar komu á land. Munurinn er varla marktækur og væri líklega ekki fyrir hendi ef að stór hluti af ágúst hefði ekki boðið upp á jafn slæm skilyrði og raun bar vitni. Athyglisvert er að Straumarnir enduðu með 215 laxa, sem er auðvitað flott veiði á tvær stangir, en samt 62 löxum minna en í fyrra. Straumarnir eru í Hvítá, en eru í raun vatnamót Norðurár og Hvítár. Þó að Norðurá hafi fengið góðar göngur, gæti þetta samt evrið vísbending um ívið minni göngur nú en í fyrra. Aftur á móti mátti lesa í viðtali við Einar Sigfússon, umsjónarmann árinnar þá skoðun hans að stórlaxar hefðu verið fleiri í sumar en í fyrra.

Loks er það lokatala Búðardalsár, 331 lax, 76 löxum meira en í fyrra og í tveggja stanga á þá er það mikill bati.