Smá dembur og laxinn að kroppast upp

Hafralónsá opnaði nýverið og hafa nokkrir fiskar náðst þar á land, en eins og sjá má þá vantar ekki vatnið í Þistilfirðinum. Það er Jón Þór Júlíusson leigutaki sem býr sig undir að sleppa glæsilegri hrygnu. Mynd Hreggnasi

Nýjar vikutölur komnar hjá angling.is og mál að rýna í þær og sjá hvað hefur verið í gangi á bökkum vatnanna. Nú hafa t.d. komið langþráðar rigningardembur, en dugar það? Svo vantar líka tölur úr Urriðafossi og Eystri Rangá og Þverá/Kjarrá hefur ekki birt nýja tölu síðan 12.6. Skoðum:

Urriðafoss er lang hæstur þó að talan þar sé vikugömul. Skoðum nánar aðkomu hans áþessum vangaveltum þegar ný tala birtist. En Blanda kemur á eftir og er með 110 laxa. Vikutalan hennar 25 laxar og vikutalan þar á undan 31, þannig að örlítið hefur dregið úr. Stórir fiskar einkenna veiðina í Blöndu til þessa.

Brennan er lífleg þessa daganna og er með alls 93 laxa, þar af komu 39 í liðinnni viku, 19 í vikunni þar á undan. Þetta segir þétta og fína sögu um að fiskur á leið í Þverá/Kjarrá er að ganga, en hann stoppar í Brennunni og bíður þess að skilyrði til göngu vænkist.

Miðfjarðará var með 39 laxa viku og tyllti sér í alls 63 laxa. Fyrsta vikan, sem var ekki full vika, skilaði 24 löxum. Þetta verður að teljast mjög gott, því skilyrði í Miðfirðinum hafa ekki verið uppá marga fiska og t.d. nánast óveiðandi í Vesturá og Núpsá.

Fyrir nokkrar ár var að koma fyrsta tala sumarsins, Ytri Rangá 57 laxar. Flott opnun þar. Haffjarðará 40 laxar og Elliðaár 36 laxar.

Grímsá er með tæplega eina og hálfa viku þar sem heildartalan í kvöld var 31 lax og vikutalan 21 lax. Þá er að léttast brúnin yfir velunnurum Norðurár sem var með 18 laxa viku og skreið uppí 29 laxa. Að sönnu ekki líkt Norðurá, en það hefur þó kviknað meira líf en var framan af.

Þá koma nokkrar ár til viðbótar með fyrstu tölu sína, þær helstu Víðidalsá 20 og Flóka 17 stk. Sjá fleiri tölur á www.angling.is