Enn er glymrandi sjóbirtingsveiði

Guðrún Ósk Ársælsdóttir
Guðrún Ósk Ársælsdóttir með 75 cm sjóbirtingshæng úr Geirlandsá. Myndin er fengin af vef SVFK.

Svo er að heyra að enn sé glymrandi sjóbirtingsveiði í ám í Vestur Skaftafellssýslu. Óvenjumikið er um mjög stóra fiska, en segja má að auk þess hafi mikið vatn sett svip sinn á veiðiskapinn.

Arnar Óskarsson stjórnarmaður hjá SVFK er með fína samantekt um vorveiðina í Geirlandsá á vef SVFK, hann skrifar m.a.: Vorveiðin í Geirlandsá fór vægt til orða tekið vel af stað og fengu fyrstu fjögur hollin yfir 100 fiska. Fimmta holl sem var við veiðar dagana 9-11. apríl fékk tæpa 50 fiska en eftir það brast á með miklum rigningum, áin varð mórauð og fór á kaf eftir miklar rigningar. Hefur mikið vatn gert mönnum erfitt fyrir á svæðinu síðasta hálfa mánuðinn en samt verið kropp eina og eina vakt þegar vatn hefur náð að sjatna örlítið og hreinsast á milli „kakóa“.

Öll holl hafa samt verið að fá fiska t.d. fengu hollin sem voru við veiðar dagana 17-19. og 19-21. átján fiska hvort holl og svo það nýjasta sem við fréttum af voru 25 fiskar dagana 23-25. apríl. Mest hefur fjörið verið á Görðunum svokölluðu og eitthvað við brúna, skiljanlega þegar svona mikið vatn er og aðstæður því erfiðar í Ármótunum þar sem megnið af vorveiðinni fæst allajafnan.

Það sem hinsvegar vekur mesta athygli er sú staðreynd að sex fyrstu hollin veiddu öll yfir 90 cm birtinga og sum hollin fleiri en einn sem er algjörlega fáheyrt og má teljast líklegt að hlutfall stórfiskjar eigi eftir að aukast enn frekar í haustveiðinni þetta árið sem fyrri ár.

Af öðrum svæðum er svipað að frétta, komnir nærri 600 á land úr Vatnamótunum þar sem Geirlandsá/Breiðabalakvísl, Hörgsá og Fossálar mæta Skaftá og í hinum rómaða Tungulæk hefur enn fremur verið mok á köflum. Á öllum þessum svæðum hefur þó mikið vatn kallað á að menn hafa ekki endilega fundið fiskinn strax, en nóg hefur verið af honum þegar til kastana hefur komið, í bókstaflegum skilningi.

Athygli vekur hinn mikli fjöldi stórra fiska og taka má Tungufljótið inn í þann pakka einnig, og á þetta án nokkurs vafa rætur að rekja til stóraukinna sleppinga á birtingi. Í flestum ánum er alger sleppiskylda, annars litlir kvótar. Birtingurinn er lífsseigur, verður gamall og gríðarstór ef hann fær til þess tækifæri.