Um svæðið gengur mikið af laxi..

Eystri Rangá hefur augljóslega og verðskuldað átt stóran hluta af sviðinu í sumar, slík hefur veiðin þar verið. En þó að áin sé að sigla í örugga og flotta metveiði, þá velta ýmsir fyrir sér hvort að hún muni ógna metinu sem að systir hennar Ytri Rangá á og er frá sumrinu 2008, þegar 14.315 laxar veiddust. Það skyldi enginn segja aldrei.

Hin mikla veiði í Eystri Rangá í sumar sker sig nokkuð úr og lýsingar á borð við „sturluð veiði“ og „teppalögð af laxi“ hafa ítrekað heyrst. Lítið er minnst á Einar Lúðvíksson sem séð hefur um ána, m.a. seiðasleppingar í hana um árabil, en var látinn taka pokann sinn þegar nýir leigutakar tóku við ánni fyrir sumarið 2020. VoV spurði Einar hvort að ekki væri rétt að stórveiðin í sumar væri afrakstur seiðasleppinga hans 2019 og 2018. Hann svaraði: „Þetta er nú meira en það, þetta er afrakstur 32 ára vinnu okkar pabba (Lúðvík Gissurarson) Áin stefnir nú í 10 til 15 þúsund laxa, allt eftir því hvað skilyrðin bjóða upp á. Hún hefur verið að tvöfalda sig miðað við 2007 þegar hún ednaði í 7500 löxum og er á svipuðu róli og Ytri Rangá 2008 þegar hún endaði í 14500 löxum.“

Vertíðin 2008 var einmitt metveiðiár Ytri Rangár, áin gaf þá alls 14315 laxa eins og fram hefur komið. Metveiði Eystri Rangár er 7473 laxar dregnir á land 2007. Vikuveiðin í Eystri Rangá, 1470 laxar, í síðustu viku hefur vakið verðskuldaða athygli. En rétt eins og Ytri Rangá á stærra met, þá á hún líka mestu vikuveiðina, sem, eins og búast mátti við, var tekin metveiðisumarið 2008. Vikuna 27.ágúst til 3.september veiddust 1904 laxar