Smá líf að færast í Þverá og Kjarrá – Brennan sterk

Jón E.Sigurðsson með fallega hrygnu úr Kirkjustreng í Þverá í morgun. Mynd Sigurður Á. Magnússon

Líf hefur verið að færast í Borgarfjörðin, allavega í Þverá og Kjarrá, auk þess sem Brennan hefur gefið vel. Þar er töluvert af laxi og bætir stöðugt í. Tala veiddra laxa þar er með því besta sem menn muna m.t.t. að enn er aðeins liðinn ríflega hálfur júní. Þó hafa skilyrði ekkert batnað.

Gísli Ásgeirsson með fallega hrygnu sem hann lendaði í Réttarstreng í Kjarrá í gær. Myndina tók Sveinn Björnsson, betur þekktur sem Denni.

Þetta sagði Ingólfur Ásgeirsson umsjónarmaður og leigutaki í Þverá og Kjarrá. Í morgun veiddust þrír laxar, einn  í gær og tveir í fyrradag. Flestir voru lúsugir sem sýnir að eitthvað af laxi lætur sig hafa það að vaða upp þrátt fyrir afburða lága vatnsstöðu. „Við Andrés í Síðumúla tókum veiðina í Brennunni saman og þann 14.6 var svæðið búið að gefa 38 laxa, allt stórlaxa nema að nýverið veiddust tveir smálaxar og menn hafa séð að lax er að bæta í við Brennuna. Eitthvað er af laxi í Þvera og  einn þriggja í morgun var tekinn grálúsugur í Berghyl ofan við Kirkjustreng. Tveir uppi í Kjarrá. Auk þess hafa veiðst laxar síðustu vaktir í Hornhyl, Réttarhyl og Neðra Rauðabergi í Kjarrá. Í henni er lax víða, en vatnsstaðan gerir veiðiskapinn erfiðan sem kunnugt er. Þó hefur þetta í raun verið mun betra en ég þorði að vona. Lykilatriði er að halda brotunum laxgengum fyrst að fiskar eru að taka af skraið. Sílamáfurinn vokir hér yfir, en við erum með mann á fullu í að stugga þeim frá og við höfum aðeins fundið einn dauðan lax,“ bætti Ingólfur við.