Vigfús Orrason með fyrsta laxinn úr Fljótaá í sumar, 78 cm úr Prestlænu.

Í dag var fyrsti laxveiðidagurinn í Fljótaá. Einn leigutakanna var einn um hituna, Vigfús Orrason og hann hafði skemmtilega sögu að segja hvernig fyrstu laxarnir skiluðu sér.

Lax númer tvö úr Fljótaá, 92 cm úr Lönguflúð

„Ég er búinn að vera hér í nokkra daga í undirbúningi fyrir sumarið. Rétt skroppið af og til, til að ná í bleikju á grillið, en var úti á palli seinni partinn þegar fyrri skjálftinn kom. Fann vel fyrir honum og dreif mig niður að á. Fékk þá fyrsta lax sumarsins, 78 cm í Prestlænu. Svo ekkert, nema að svo kom seinni skjálftinn sem ég fann meira fyrir. Þá var ég kominn upp í Lönguflúðir og fékk annan, 92 cm. Þetta er ansi góð byrjun í Fljótaá, það þykir ekki tíðindum sæta þó að það veiðist ekki lax fyrr en komið er fram í júlí, þannig að þetta er skemmtilegt. Og hvorugur var lúsugur, sem svo sem segir ekkert, það er lón hér neðst sem hann getur verið að bíða í á meðan lúsin drepst og hverfur,“ sagði Vigfús

Hann bætti við að áin væri á yfirfalli og gruggug um daginn, en hefði hreinsast. Hlýindin hefðu síðan komið ánni í tíu gráður þrátt fyrir vatnselginn. Það hefði eflaust skipt sköpum.