Hafralónsá
Hafralónsá, Gústi

Ekki er búið að skera úr hver hreppir Hafralónsá, en fjögur tilboð bárust í útboðinu sem boðað var til undir lok vetrar. Búið er að opna umslögin og Hreggnasi var með hæsta tilboðið.

Smá bras hefur verið á Hafralónsá síðustu sumur enda er áin á jaðarsvæði, en þetta er í eðli sínu og að upplagi ótrúlega mögnuð laxveiðiá. Leigutími leigutaka var á enda og áin fór í útboð. VoV getur frá því sagt að fjögur tilboð bárust í veiðiréttinn. Hreggnasi, SVFR, Salmon Tails og félag þeirra Sigga Haugs og Ingólfs Helgasonar. VoV hefur heimildir fyrir því að Hreggnasi hafi boðið hæst, 24 milljónir á ári og var tilboðið skilyrt til átta ára. Hin seinni ár hafa leigutakar lagt áherslu á langtíma samninga til að tryggja vinnufrið. En sum sé, eftir því sem VoV kemst næst þá hefur ekki verið tekin afstaða enn sem komið er, en líkur benda til að Hreggnasi hreppi hnossið. Tilboð þeirra er umtalsvert hærra en önnur tilboð.

Athygli vekur, að Vesturdalur ehf, fyrri leigutaki og stærsti jarðareigandinn, bauð ekki í ána, en félagið hefur rekið ána síðustu sumur og hefur gengið á ýmsu, enda, sem fyrr segir, þá hefur veiðin verið í smá niðursveiflu.