Eins og oft og víða hefur komið fram var laxveiðin 2016 í ríflegu meðallagi, en líklega á heildina litið í slöku meðallagi á vestanverðu landinu. Lítið fór fyrir metveiði, en þó fundum við eina mettölu, og það á ólíklegum stað….

….sum sé í Fögruhlíðará í Jökulsárhlíð, en hún fellur sjálfstæð til sjávar um Fögruhlíðarós skammt norðan við sjálfa Jöklu, eða Jökulsá á Dal. Það er Veiðiþjónustan Strengir sem er með þetta svæði á leigu og er Fögruhlíðará seld með Jöklu og hliðarám hennar Kaldá, Laxá og Brúará. Alls veiddust 584 laxar á svæðinu, en þar af 100 laxar í Fögruhlíðará, en skráning í hana er sjálfstæð, enda er hún ekki hliðará Jöklu. Samkvæmt vefsíðu Strengja, er þetta metveiði í Fögruhlíðará. Fyrir nokkrum árum var áin ekki þekkt fyrir laxgengd. Fögruhlíðarósinn er með magnaðri sjóbleikjuveiðistöðum og bleikjan hefur síðan gengið fram ána og hrygnt. Staðbundinn urriði hefur og verið í ánni, en Strengir hófu seiðasleppingar í ána samhliða átakinu sem gert var í Jöklu hér um árið. Hefur lax verið að styrkjast í ánni æ síðan, með þeim árangri að 2016 náði áin í fyrsta skipti þriggja stafa tölu.