Fitjaflóð.
Veiðimenn að rótera í Trektinni. Myndin er fengin FB SVFK. Hún er síðan í fyrra reyndar, vonandi að við getum hent inn nýjum myndum fljótlega.

Enn má gera frábæra sjóbirtingsveiði í Vestur Skaftafellssýslu, en fyrr í vikunni opnaði svokallað Fitjaflóð með háum hvelli. Það var mokveiði og mikið af fiski.

Fitjaflóð
Stór og falleg hrygna úr opnun Fitjaflóðs.

Fitjaflóð er neðarlega í Grenlækjarkerfinu, er stór og mikil útvíkkun á ánni og hefur lengi verið mikil og góð sjóbirtingsveiðislóð. Stjórn SVFK opnaði að þessu sinni og þó að við höfum ekki endanlegar veiðitölur þá vitum við að veiði var gífurlega góð, þannig sagði Gunnar Óskarsson formaður SVFK s.l. mánudag að félagarnir hef’u verið komnir með áttatíu landaða eftir fyrstu vakt, “veislan í sýslunni heldur bara áfram, þetta var mok hjá strákunum og oft fiskur á í hverju kasti. Þetta var mest í Trektinni, en það veiddist líka víðar,” sagði Gunnar og vitnaði þar í aðóhemju lífleg birtingsveiði hefur verið í öllum ám í Vestur Skaftafellssýslu þetta vorið. T.d. hefur veiði í Geirlandsá verið svo mikil að ný veiðibók er komin í húsið og í byrjun viku voru þegar komnir fimmtán fiskar í hana. Þá hermdu fréttir fyrir góðri viku eða meira að þá hefðu verið komnir 900 fiskar í bók í Vatnamótunum.

En aftur að Fitjaflóði, þar er veitt á fjórar stangir og var aflinn blanda af fallegum og vel höldnum geldfiski, sem og hrygningarfiski.