Andakílsá
Andakílsá hefur átt betri daga heldur en akkúrat núna. Mynd Kristján Guðmundsson.

Ákveðið var í dag að engin stangaveiði yrði í Andakílsá á komandi vertíð. Þetta var niðurstaða fundar þar sem hagsmunaaðilar hlýddu á ýmsa sérfræðinga um stöðu og horfur.

Eins og fram hefur komið í fréttum tappaði Orka Náttúrunnar hrikalegu magni af aur og drullu úr uppistöðulóni Andakílsvirkjunar út í Andakílsá með þeim afleiðingum að áin er nú smekkfull af drullu og aur og augljóst að lífríkið hefur fengið þar bylmingshögg.

Ari Hermóður Jafetsson framkvæmdastjóri SVFR sem er leigutaki árinnar sagði í samtali við VoV í morgun að ákvörðun um framhald yrði tekin í framhaldi af umræddum fundi. Nú liggur það sem sagt fyrir og í fréttum RUV var haft eftir formanni Veiðifélags Andakílsár að fyrst og fremst væri nú hugsað til þess að reyna að hreinsa ána þó að ekki liggi fyrir hvernig hægt er að gera það, í mörg horn væri enn að líta í þeim efnum. Hann staðfesti þar og að ekki yrði veitt í ánni í sumar og fiskifræðingar hafa hvatt til þess að reynt yrði að ná þeim laxi sem mun ganga í ána í sumar til þess að nota í klak, enda væru bú- og hrygningarsvæðin í molum eftir umrædda yfirgengilega vitleysu. Um er að ræða gífurlegt tjón, ekki aðeins fyrir lífríki árinnar, heldur einnig landeigendur sem hafa umtalsverðar tekjur af útleigu á laxveiðinni, en áin er vinsæl laxveiðiá sem selst oftast upp hjá leigutakanum.