Sporðaköst! Myndina tók Aðalsteinn Pétursson

Fram hefur komið að Pétur Pétursson er að draga sig útúr „bransanum“, að selja hlut sinn í félaginu sem haft hefur Vatnsdalsá í Húnaþingi á leigu í um 25 ár. Nýtt blóð að koma inn, hinn heimsfrægi gítarleikari Eric Clapton, en hvað segir Pétur við þessi tímamót?

„Þetta tekur nú ekki gildi fyrr en næsta ár, ég verð á mínum stað í Flóðvangi í sumar. En þetta eru vissulega viðbrigði þó að ekki sé komið af stað ennþá. Planið með breytingu á eignarhaldinu hefur verið á teikniborðinu í eitt og hálft ár og það eru ýmsar aðrar breytingar þessu tengdar en sú eina að ég sé að draga mig í hlé. Fyrirtæki sem Sturla Birgisson er í forsvari fyrir er að kaupa minn hlut, sem ég hef átt með Birni Kr. Rúnarssyni. Eric Clapton, sá snillingur, er með Sturlu og þeir þrír verða eigendur þessa nýja félags, en Sturla hefur rekið Laxá á Ásum síðustu árin,“ sagði Pétur í samtali við VoV.

En hvað með öll árin, viðbrigðin?

„Það eru 25 ár síðan að ég undirritaði samning við Veiðifélag Vatnsdalsár og er skráður á nýjum samningi til 2025, þannið að þó að ég hverfi á braut þá er þetta langur tími og svakaleg törn að baki. Það er vissulega sérstök tilfinning, en eins og ég sagði, þetta hefur verið á teikniborðinu í hálft annað ár og svo gerðist það bara, ég varð sáttur og fór að hugsa öðru vísi. Það gerist þegar maður áttar sig á því að maður er ekki eins öflugur liðsmaður og fyrrum. Höfuðið er á sínum stað, en skrokkurinn ekki. Þegar maður finnur fyrir því og gengst við því þá er þetta auðveldara. En nú taka við nýir tímar, lúxuslíf, frítt í strætó og frítt í öll söfnin!“

En að gríni slepptu?

„Já, ég er sáttur og hugsa til þess að geta notið mín aðeins, t.d. í Skálmardal þar sem ég á jörð með fleirum, en hef ekkert getað sinnt því. Þar er sjóbleikja og kyrrð og friður. Nú klæjar mig í lófana að eyða dögum þar. Og ég er sáttur við viðskilnaðinn, sem kemur á erfiðum tímum. Veiran hefur sett allt á annan endan og við höfum eiginlega, í samvinnu við landeigendur og veiðileyfakaupendur, fryst sumarið 2020. Aðal atriðið er að allir gangi sáttir frá borði. Og ég tel að við höfum gengið þannig frá hnútunum. Félagið er í góðum höndum Björns, Sturlu og svo Claptons, það er stutt á milli svæðanna, Laxár á Ásum og Vatnsdalsár og þeir eru með ýmis plön sem mér hugnast vel. Þetta er allt gert í bróðerni og ég óska þeim alls hins besta.“

En aðkoman að Gljúfurá/Hópinu og Reykjadalsá í Suður Þingeyjarsýslu?

„Ég er að fara út úr því líka. Við höfum verið með Gljúfurá í nánast gjörgæslu síðustu árin og þau næstu skera úr um hvernig fór. Á meðan hafa menn lent í fágætri sjóbleikjuveiði á stundum í ós hennar við Hópið. Reykjadalsá er annars konar viðfangsefni. Ég hef verið með hana lengi og reynt að koma henni til eftir mögur ár með því að hafa skyldusleppingu á laxi. Mér hefur fundist það skila sér. Þá er áin frábær urriðaveiðiá. En við gerðum mikla og gagngera breytingu á rekstri hennar í sumar. Hún hefur verið að stórum hluta seld til erlendra veiðimanna, ekki síst Skandínava. Þegar veiran stöðvaði allt létum við sænskan söluaðila vita að ekkert yrði í boði í ánni í sumar, hún fór alfarið á innlenndan markað og verð veiðileyfa slegið af um helming. Nú þegar hvatt er til ferðalaga innanlands hefur komið á daginn að það er eftirspurn eftir svona á, góð veiði, gott hús og gott verð. Áin er stutt frá því að vera uppseld, þannig að við sjáum svo til hvert framhaldið verður eftir 2020.“

Sagði Pétur.

Og það verður eftirsjá í honum úr „bransanum“. Við óskum honum alls hins besta.